„Versti dagurinn í dag“

Skyggni var lítið á Hvolsvelli í dag vegna öskufoks og …
Skyggni var lítið á Hvolsvelli í dag vegna öskufoks og fólk á ferli úti við með rykgrímur. ljósmynd/Þorsteinn Jónsson

„Þetta var klárlega versti dagurinn hér í dag, frá því að gosið hófst," segir lögreglumaður á vakt á Hvolsvelli um öskumistrið sem lá yfir bænum. Þegar verst lét var skyggnið aðeins 100-200 metrar en hefur batnað í kvöld. Mistrið hefur sem kunnugt er lagst yfir allt Suðurland og höfuðborgarsvæðið í dag. Hafa sumir bæjarbúar tekið upp rykgrímur.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli sést ekki lengur í neina öskubólstra frá Eyjafjallajökli, líkt um tíma fyrr í kvöld. Samkvæmt óróamælingum Veðurstofunnar hefur óróinn minnkað á ný og virðist hafa verið um skot að ræða upp úr efsta hluta gígsins. Engir skjálftar hafa heldur mælst í jöklinum í kvöld.

Töluverð umferð var í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli þrátt fyrir öskumistrið, en þó ekki eins og oft hefur verið undanfarin ár fyrstu ferðahelgina í júní. Sást til fólks á ferli í bænum með rykgrímur, sem lítið hefur borið á til þessa, að sögn lögreglu.

Með rykgrímur í Reykjavík

Einnig hefur sést til fólks með rykgrímur úti við í Reykjavík í kvöld, aðallega börn og ungmenni. Fór svifrykið í höfuðborginni langt yfir heilsuverndarmörk í kvöld, eða yfir 1.100 míkrógrömm á rúmmetra. Heilsuverndarmörk á sólarhring eru við 50 mg á rúmmetra og meðaltalsmengun frá miðnætti var komin í 450 mg á rúmmetra um tíuleytið í kvöld. Er fólki með viðkvæm öndunarfæri ráðlagt að halda sig innan dyra. Spáir Veðurstofan því að svipað ástand geti verið á höfuðborgarsvæðinu á morgun en birti til á sunnudaginn.

Askan var fljótt að setjast á bílana á Hvolsvelli, sem …
Askan var fljótt að setjast á bílana á Hvolsvelli, sem og víðar á Suðurlandi og suðvesturhorninu í dag. ljósmynd/Þorsteinn Jónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert