Ný óróalota í Eyjafjallajökli í nótt

Gosmökkurinn er hvítur nú í morgunsárið.
Gosmökkurinn er hvítur nú í morgunsárið. vefmyndavél Mílu

Óróalota hófst aftur í Eyjafjallajökli hálfri stundu eftir miðnætti. Gosórói jókst verulega um miðjan dag í gær og var nokkuð stöðugur fram undir kl. 20 þegar hann datt niður.

Styttri óróapúlsar komu fram á jarðskjálftastöðvum við jökulinn kl. 20:45 og kl. 21:20. Á meðan á þessum óróahviðum stóð sást svartur eða dökkgrár mökkur. Lítill mökkur sást kl. 01:25 á vefmyndavél Mílu við Þórólfsfell. Nú í morgun stendur hins vegar hvítur gufustrókur upp af jöklinum.

Að sögn veðurstofunnar hafa engir skjálftar fylgt þessum óróahviðum og undanfarið hafa eingöngu verið smáir, grunnir skjálftar undir fjallinu. Líklega hefur losnað um fyrirstöðu í gígnum með auknu gasstreymi og öskusprengingum, að sögn veðurstofunnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka