Óróakviðurnar í Eyjafjallajökli hafa haldið áfram lengur en jarðfræðingar áttu von á þegar fyrsti kippurinn kom í gær. Algjör óvissa er þó enn um hvert framhald þeirra verður, að sögn Freysteins Sigmundssonar jarðeðlisfræðings.
„Þetta er ekki eins stutt atburðarás og við héldum í gærkvöldi, þetta reyndist ekki vera stakur atburður heldur halda óróakviðurnar áfram og jafnvel af meiri krafti þannig að það verður að fylgjast mjög grannt með framhaldinu," segir Freysteinn.
Óróapúlsar hafa komið reglulega fram frá miðjum degi í gær og héldu þeir áfram í nótt og í morgun. „Því lengur sem þessi áframhaldandi virkni dregst á langinn því minni líkur eru á því að þetta séu dauðateygjur því það sker sig alveg frá því sem verið hefur frá því gosið datt niður," segir Freysteinn. „Við höfum sagt að framhaldið sé mjög óvisst og þetta er bara ein staðfesting á því, það sem við þurfum að gera er að fylgjast mjög vel með og reyna að skilja hvað þessar óróakviður eru að gera."
Gufubólstrar hafa risið upp frá jöklinum og ekki hægt að útiloka að sögn Freysteins að einhver tilfærsla á kviku hafi orðið efst í gosrásinni. Ólíklegt sé hinsvegar að óróinn nái djúpt í jarðskorpuna. „Þetta getur verið óstöðugleiki í einhverjum tappa í gosrásinni og það er hægt að hugsa sér aðrar atburðarásir en við höfum verið að sjá, að þetta séu aðallega sprengigos eða hraungos þar sem hraunið rennur burt. Það getur líka verið að það safnist saman efni í gígnum en í svo litlu magni að það renni ekki burt.“
Freysteinn segir atburðarásina ekki koma á óvart miðað við það litla sem vitað sé um fyrri gos í Eyjafallajökli, en heimildir herma að sveiflur hafi þá verið í virkni jökulsins og gos jafnvel tekið sig upp aftur. „En við verðum að bíða og sjá hvert framhaldið verður á þessari atburðarás."