„Ekki í mínum verkahring"

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að það hafi ekki verið nein tölvupóstsamskipti milli hennar og Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra. Hún segist hafa vitað af launaáhyggjum Más um að lækka mikið í launum en það var alveg skýrt af hennar hálfu að það væri ekki í hennar verkahring að hafa afskipti af hans launamálum eða hafi afskipti af málinu á einn eða annan hátt.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra út í launamál Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra á Alþingi í dag.

Birkir Jón vísar til þess að á fundum efnahags- og skattanefndar að undanförnu hafi komið í ljós að formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, Lára V. Júlíusdóttir, og ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Ragnhildur Arnljótsdóttir, hafi átt í miklum samskiptum um launamál seðlabankastjóra. Því til staðfestingar séu tölvubréf þeirra á milli ásamt tillögu úr Seðlabankanum hvernig væri hægt að hækkað laun seðlabankastjóra svo hann þyrfti ekki að draga umsókn sína til baka.

Jóhanna segist hafa haldið að allt væri komið fram í máli seðlabankastjóra.

„Það liggja fyrir yfirlýsingar frá mér um það að ég hafi ekki komið að launaákvörðun seðlabankastjóra eða gefið nokkur fyrirheit í því máli enda er það ekki í mínum verkahring. Það er líka alveg klárt og staðfest opinberlega og í þingnefnd að bæði Már seðlabankastjóri, formaður stjórnar Seðlabankans og ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins að þau telja að ég hafi engin loforð gefin í málinu eða komið að ákvörðuninni. Það er alveg skýrt. Ótrúlegustu menn hafa samt komið hér í ræðustól og í fjölmiðla og lýst hneykslan á málinu, skort á gegnsæi og brigslað mér hreinlega um að ljúga að þjóðinni. Það er fjarri öllum sannleika enda er tilgangur þeirra bara einn, að gera mig ótrúverðuga og málið allt tortryggilegt og þar er einskins svifist," sagði Jóhanna á Alþingi í morgun.

Ég spyr hvar er þeirra gegnsæi sem hafa talið sig þess umkomna að vera handhafar sannleikans í málinu. Hafa þeir sjálfir gert grein fyrir sínum málum líkt og þjóðin kallar eftir. „Til dæmis í styrkjamálunum og fleira. Heitir þetta ekki að kasta steini úr glerhúsi," sagði Jóhanna á Alþingi í dag.

„Talað er um tölvusamskipti mín og seðlabankastjóra í þessu máli. Það voru engin tölvupóstsamskipti önnur en að Már sendi einn póst sem ég sá enga ástæðu til að svara, segir Jóhanna. „Ég vissi af áhyggjum Más um að lækka mikið í launum. En það er jafnvíst að það var alveg skýrt á minni afstöðu að ég væri í engu fær um að taka ákvarðanir í hans málum eða hafa afskipti af þeim á nokkurn hátt," segir Jóhanna.

Hlutur Morgunblaðsins er svo sérstakur kapituli út af fyrir sig, segir forsætisráðherra Hún segir fá mál hafa fengið aðra eins vigt í Morgunblaðinu á undanförnum vikum. Morgunblaðið sem þegir svo í mörgum málum sem hafa komið fram í rannsóknarskýrslunni, segir Jóhanna.

„Þetta er samt miðillinn sem þegir þunnu hljóði og eini fjölmiðillinn sem þagði þegar nefnd Alþingis sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna ákvað einum rómi að vísa málum fyrrum seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins til saksóknara. Hvað liggur hér að baki," spurði Jóhanna á Alþingi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka