Enn einhver gosvirkni

Eldgosið í Eyjafjallajökli bærir lítið á sér þessa dagana
Eldgosið í Eyjafjallajökli bærir lítið á sér þessa dagana Ljósmynd Anný Aðalsteinsdóttir

Einhver gosvirkni er enn vestast í gígnum í Eyjafjallajökli og öðru hverju verða kvikusprengingar sem framleiða ösku sem berst þó ekki langt frá gígnum. Órói á jarðskjálftamælum rýkur upp við þessa sprengivirkni. Hvítir bólstrar hafa náð allt að 6 km hæð í kjölfar sprenginganna. Haldið verður áfram að fylgjast grannt með eldstöðinni, samkvæmt stöðumati Veðurstofu og jarðvísindastofnunar HÍ.

Mikil gufuvirkni er í stóra gígnum og hefur aukist síðan á fimmtudag. Vestast í stóra gígnum er kominn nýr gígur þar sem sprengivirknin er. Samfara óróahrinum seinnipart sunnudags risu gosmekkir upp af þessum gíg. Gosmekkir eru litlir og sprengingar litlar. Þá heyrist í hraunhruni úr rásinni milli sprenginga. Sökum mikillar gufu sást aðeins í hluta nýja gígsins sem nú er virkur. Jökullinn skríður hratt fram úr toppgígnum.

Upp úr miðjum degi þann 4. júní jókst órói á stöðvum kringum eldstöðina en datt svo niður um kvöldið. Smáóróahviður héldu áfram og á laugardagsmorgun um kl. 09:00 varð óróinn hvað mestur en minnkaði síðan fram á sunnudagsmorgun. Síðdegis í gær fór óróinn aftur upp um tíma og smáóróaskot voru í nótt. Óróinn hefur oft risið mjög snögglega og fallið jafnsnögglega niður aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka