Umbótanefnd skilar af sér í október

Forysta Samfylkingarinnar
Forysta Samfylkingarinnar

Umbótanefnd Samfylkingarinnar hefur nú komið saman til að skipuleggja þá vinnu sem framundan er næstu mánuði. Verkefni hennar er að gera úttekt á starfi og starfsháttum flokksins í aðdraganda bankahrunsins 2008. Umbótanefndin mun skila af sér áliti í október.

„Nefndin mun einkum fjalla um og greina þá þætti í starfi flokksins sem ætla má að hafi stuðlað að því að flokkurinn sá ekki fyrir atburði né hindraði þá atburðarás sem endaði með hruni bankanna haustið 2008.

Athyglinni er sérstaklega beint að stjórnarþátttöku flokksins en farið verður lengra aftur í tímann og fjallað um starf Samfylkingarinnar almennt eftir því sem nauðsyn krefur. Nefndin mun einnig fjalla um þátt einstakra flokksmanna í atburðarásinni. Horft verður á ábyrgð forystumanna flokksins á lykilákvörðunum á þessum tíma og ábyrgð þeirra á stefnumótun flokksins og stjórnvalda.

Fjallað verður um pólitíska og siðferðilega ábyrgð þeirra sem tóku þátt í prófkjörum flokksins og völdust til forystu á þessu tímabili. Nefndin mun ekki fella dóma í einstökum málum en gerir ráð fyrir því að niðurstöður hennar hafi áhrif á mat flokksins og flokksmanna á stöðu þeirra sem gegna eða hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Starf hennar gefur þó hvorki flokknum né einstaklingum innan hans ástæðu til að bíða með að gaumgæfa eigin ábyrgð og stöðu í ljósi þeirra atburða sem starf nefndarinnar tekur til," segir í tilkynningu.

Nefndin vinnur óháð öllum stofnunum Samfylkingarinnar, samkvæmt tilkynningu frá nefndinni. Hún hefur aðgang að öllum gögnum um starf flokksins, þar á meðal gögnum um fjármál hans og nýtur fulls og óskoraðs sjálfstæðis í starfi sínu og um niðurstöður sínar. Þá mun nefndin leggja fram tillögur um breytingar á stefnu flokksins, skipulagi og starfsháttum gefi niðurstöður hennar tilefni til slíkra tillagna.

Nefndin mun í sumar starfa í fjórum vinnuhópum sem skipta verkum með sér þannig að einn hópurinn fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þau mál sem varða Samfylkinguna sérstaklega í henni. Annar hópur fjallar um stefnumótun flokksins og stefnumál, sá þriðji um starfshætti og sá fjórði um umræðuna innan flokksins. Nefndin mun skila af sér í október.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka