Spáð er allt að 40 mm úrkomu á Eyjafjallajökli í nótt en reiknað er með að mest rigni á tímabilinu milli klukkan 5 og 9 í fyrramálið. Við þessar aðstæður er hætta á að öskulög á Eyjafjallajökli geti skriðið fram og niður farvegi áa sem renna suður af fjöllunum.
Fram kemur á vef Veðurstofunnar, að þetta eigi helst við um Svaðbælisá, Laugaá og Kaldaklifsá en einnig geti slík flóð komið niður Holtsá, Miðskálaá og Írá.
Mikið eðjuflóð kom í Svaðbælisá 19. maí og flæddi vatn þá yfir varnargarða. Síðan þá hafa garðarnir verði styrktir. Var flóðið rakið til þess, að gjóska,
sem lá á jöklinum neðan 1200-1300 metra hæðar, hefði flotið fram vegna mikillar úrkomu og hreinsast af 4-5 ferkílómetra svæði.