Alþingi hefur samþykkt frumvarp um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. 45 þingmenn samþykktu frumvarpið, 2 greiddu ekki atkvæði og 14 voru fjarstaddir.
Með frumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að stofna opinbert hlutafélag til að standa að undirbúningi vegna útboðs á byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að félagið standi að undirbúningi og útboði á byggingu nýs háskólasjúkrahúss og að ríkið taki húsnæðið á langtímaleigu að byggingarframkvæmdum loknum. Í þessu skyni verði fjármálaráðherra heimilt að leggja félaginu til hluta þeirra lóðarréttinda sem ríkið hefur til starfsemi spítalans undir bygginguna.
Áætlanir gera ráð fyrir því að heildarkostnaður við verkið verði um 51 milljarður króna, þar af um 33 milljarðar króna til nýbygginga og 7 milljarðar króna í tækja- og búnaðarkaup.
Auk þess er gert ráð fyrir að 11 milljarðar króna fari í endurbætur á núverandi húsnæði spítalans við Hringbraut sem nýtt verður áfram undir rekstur hans.