Atvinnuskapandi verkefni fyrir ungt fólk

mbl.is/Eggert

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að veita tæplega 10 milljónum kr. til atvinnuskapandi verkefna ungs fólks. Alls hlutu tíu verkefni styrki.

Verkefnin eru af ýmsum toga og má þar nefna knattspyrnukennslu í almenningsgörðum, íþróttaæfingar fyrir börn með sérþarfir, listamiðstöð sem mun ferðast um miðborg Reykjavíkur og vinnusmiðjur fyrir atvinnulaust ungt fólk á sviði arkitektúrs og borgarskipulags.

Styrkirnir eru fyrir ungt fólk 35 ára og yngri. Markmiðið er að hvetja ungt fólk til atvinnusköpunar og stuðla að auknum lífsgæðum borgarbúa. Við úthlutun fjármagns var tekið mið af því að verkefnin leiddu af sér sem flest ný störf, auðguðu borgarlífið, stuðluðu að nýsköpun í þjónustu og hvöttu ungt fólk áfram til dáða.

Borgarráð samþykkti fyrr í vetur að setja 150 milljónir kr. í sérstök atvinnuátaksverkefni, þar af 30 milljónir í sjóð fyrir ungt fólk til að skapa sín eigin atvinnutækifæri. Þetta er í annað sinn á árinu sem úthlutunarnefnd fyrir verkefni í þágu ungs fólks  úthlutar styrkjum. Auglýst var eftir styrkumsóknum undir merkjunum „Vertu með“ og umsóknarfrestur var til 15. maí sl. Næst verður auglýst eftir umsóknum um styrki í ágúst.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert