Sérfræðingar Veðurstofunnar telja „verulega líkur“ á frekari eðjuflóðum niður suðurhlíðar Eyjafjallajökuls. Ekki þurfi mikla rigningu til að koma flóðum af stað svipuðu þeim sem kom í Svaðbælisá 19. maí. Hugsanlegt er að jarðskjálfti geti komið af stað flóði.
„Í ljósi þess hve óstöðugur gjóskustaflinn er og hversu litla úrkomu þarf til þess að koma eðjuflóði af stað teljum við miklar líkur á því að flóð verði á vatnasviðum Svaðbælisár og Laugarár, og að minni flóð geti fallið niður farvegi Holtsár og Kaldaklifsár. Þar sem þykkt gosefna er mest ofan Svaðbælisheiðar teljum við hættu á því að flóð í Svaðbælisá og Laugará geti orðið allstór, þ.e. jafn stór og jafnvel eitthvað stærri en flóðið 19. maí,“ segir í skýrslu Veðurstofunnar.
Ekki þurfti meira en 10mm sólarhringsúrkomu á láglendi til þess að valda flóðinu í Svaðbælisá þann 19. maí. Veðurstofan mun fylgjast með úrkomu og vara Almannavarnayfirvöld við ef spá bendir til þess að svipuð eða meiri úrkoma en þetta sé í vændum. „Ef sólarhringsúrkoma fer yfir 50–100mm teljum við nokkuð víst að eðjuflóð falli. Rétt er að taka fram að vatnsmetta eðjulagið ysjast auðveldlega og því er ekki ólíklegt að jarðskjálfti geti komið af stað eðjuflóðum.
Vert að fylgjast með stórum jarðskjálftum í tengslum við þessa vá, einkum eftir úrkomu.“
Í skýrslunni er tekið fram að þess ber að gæta að þegar eðjuflóðin féllu 19. maí, féll mesta úrkoman á efri hluta jökuls sem snjór og að öllum líkindum hafa gjóskulögin í efri hlíðum verið frosin á þessum tíma. „Með hækkandi sól færist frostlínan ofar og úrkoma mun falla sem rigning fremur en snjór. Því má búast við að töluvert efni úr efri hlíðum jökulsins eigi eftir að gefa eftir og mynda eðjuflóð.“
Hætta á eðjuflóðum niður norðurhlíðar Eyjafjallajökuls er miklu minni en á sunnanverðum jöklinum. Lítið er um fínefni í gjóskulögum norðurhlíðanna og því er ekki sami skriðflötur þar og að sunnan. Efnið í norðurhlíðunum er grófkornóttara og einnig eru lögin ekki eins þykk. Þó má búast við gjóskutaumum og smáskriðum í miklum rigningum.
Þar sem mikla gjósku lagði yfir suðurhlíðarnar neðanverðar má reikna með miklum fjölda lítilla aurskriðna um allt svæðið, einnig úr undirhlíðum fjallsins. Gjósku lagði yfir austur- og suðausturhlíðar jökulsins sem á eftir að skolast niður Kaldaklifsá og Skógaá. Til að vernda samgöngumannvirki þarf að huga að því að hreinsa árfarvegi eftir eðjuflóð eða fyrir mikla úrkomu þar sem mikill aurburður fylgir slíkum flóðum.
Veðurstofan telur að eðjuflóð úr suðurhlíðum Eyjafjallajökuls geti orðið langvarandi vandamál sem fylgjast þarf vel með næstu mánuði og jafnvel ár.