Líklega slakað á lokun í Þórsmörk

Við Gígjökul eftir hlaupin í upphafi goss.
Við Gígjökul eftir hlaupin í upphafi goss. Ljósmynd/Ólafur Örn Haraldsson

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur telur að sennilega verði óhætt að slaka á þeim takmörkunum sem settar voru á umferð inn í Þórsmörk fyrir helgi. „Það þótti eðlilegt af öryggisástæðum að takmarka ferðir þarna á meðan það var óvissa strax eftir að þetta kom í ljós, en ég á nú von á því að það verði slakað á því. En það er auðvitað yfirvalda að taka þá ákvörðun."

Magnús Tumi vinnur að því ásamt fleiri vísindamönnum að meta aðstæður við gíg Eyjafjallajökuls og vatnið sem þar hefur safnast saman, út frá myndum sem teknar voru á föstudag. Þeir bíða auk þess mynda sem Ómar Ragnarsson tók í dag. Almannavarnir muni í kjölfarið taka ákvörðun um hvort áfram verði lokað fyrir almenna umferð inn í Þórsmörk. Aðeins hefur verið opið fyrir skipulagðar ferðir um helgina.

Magnús Tumi segir að miðað við þær upplýsingar sem nú liggi fyrir sé ólíklegt að flóð verði á næstu dögum. „Mér finnst nú líklegt að það séu einhverjar vikur í þetta, það skýrist þegar líður á daginn en ég tel ljóst að það sé svolítið í þetta. Þetta eru líklega einhverjar vikur og það er ekkert útilokað, ef þarna verður lítil vatnssöfnun, þá getur svo sem verið þarna vatn í vikur og mánuði. Það gerðist á Nýja-Sjálandi, þar fylltist svona lón á 9 árum. En af því að þetta er svo nýtilkomið þá vitum við ekki ennþá hversu hröð atburðarásin er og þess vegna er þessi óvissa."

Stöðuvatnið sem myndast hefur í botni stóra gígsins er um 300 metra breitt og nokkurra metra djúpt. Magnús Tumi segir ólíklegt að veggir gígsins mun bresta undan þrýstingnum, þeir séu það þykkir. Fyrir helgi hafi vantað um 20 metra eða svo upp á að vatnið næði yfir brúnina. Ljóst sé að þegar hlaupið verði komi það niður Gígjökul og í árfarveg Markarfljóts, en það verði líklega ekki mjög stórt. „Að öllum líkindum verður það heldur minna eða svipuð þeim hlaupum sem komu í upphafi gossins."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka