Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir einum af fimm Litháum, sem dæmdir voru í 5 ára fangelsi fyrir mansal og fleiri sakir. Refsing hinna fjögurra var milduð úr 5 ára fangelsi í 4 ára fangelsi.
Litháarnir fimm voru dæmdir til að greiða 19 ára gamalli litháenskri stúlku, sem var send til Íslands til að stunda vændi, 1 milljón króna í bætur.
Gediminas Lisauskas var dæmdur í 5 ára fangelsi en Hæstiréttur taldi að hann hefði átt ríkastan þátt í því að flytja stúlkuna til Íslands. Darius Tomasevskis, Deividas Sarapinas, Sarunas Urniezius og Tadas Jasnauskas voru dæmdir í 4 ára fangelsi.
Í dómi Hæstaréttar segir, að mennirnir hefðu unnið saman að því að svipta unga konu, sem mátti sín lítils, frelsi til að ráða ferðum sínum og dvalarstað í þeim tilgangi að láta hana leggja stund á vændi hér á landi. Þessi háttsemi hafi greinilega verið þaulskipulögð með einbeittum ásetningi í samstarfi við brotamenn erlendis.