Nýtt hjúkrunarheimili tekið í notkun

Árni Páll Pálsson og Guðrún B. Gísladóttir undirrituðu samninginn í …
Árni Páll Pálsson og Guðrún B. Gísladóttir undirrituðu samninginn í dag.

Árni Páll Pálsson, félags- og tryggingamálaráðherra, og Guðrún B. Gísladóttir, forstjóri Grundar, undirrituðu í dag samning um rekstur á nýju 110 rýma hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut 66 í Reykjavík, sem hlotið hefur nafnið Mörk –  hjúkrunarheimili.

Haft er eftir Árna Páli í tilkynningu að með opnun Markar sé orðin að veruleika sú stefna sem mörkuð hafi verið til framtíðar um gjörbreyttar og bættar aðstæður aldraðra á hjúkrunarheimilum með áherslu á sjálfstæði og virðingu aldraðra og rétt þeirra til heimilis og einkalífs.

Á hjúkrunarheimilinu verða 70 almenn hjúkrunarrými fyrir aldraða, auk fjögurra sérhæfðra eininga með 10 rýmum hver, ein fyrir hjúkrunarsjúklinga yngri en 67 ára, ein fyrir fólk með heilabilun sem er yngra en 67 ára og ein ætluð til hvíldarinnlagna fyrir heilabilaða. Jafnframt verður ein eining ætluð fólki með geðræn vandamál. Rekstur slíkrar sérhæfðrar einingar er nýmæli hér á landi.

Mörk mun leysa af hólmi hjúkrunarheimilin Víðines og Vífilsstaði og flytja heimilismenn þaðan inn á nýja heimilið í ágúst næstkomandi auk 18 einstaklinga sem nú dvelja á Landspítalanum. Að öðru leyti munu nýir íbúar verða teknir inn samkvæmt formlegu mati á vistunarþörf. Meiri hluti starfsfólks Víðiness og Vífilsstaða hefur þegið boð um að starfa á hjúkrunarheimilinu Mörk.

Heimilið verður rekið með Eden hugmyndafræðina að leiðarljósi en hún miðar að því að einstaklingurinn haldi sjálfræði sínu sem lengst með aðstoð starfsfólksins en búi jafnframt við það öryggi sem fylgir því að búa á hjúkrunarheimili.  Heimilinu er skipt niður í 11 heimiliseiningar og búa tíu heimilismenn á hverju heimili.  .


Hjúkrunarheimilið er við Suðurlandsbraut 66.
Hjúkrunarheimilið er við Suðurlandsbraut 66.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert