Fjöldi erlendra ferðamanna sem hafa heimsótt landið það sem af er júní er sá sami og á sama tíma í fyrra. „Júnímánuður virðist ætla að standa á sléttu miðað við júní í fyrra,“ segir Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknarstjóri hjá Ferðamálastofu.
„Þetta er svipað og í fyrra og lítur bara vel út, enda sér maður að það eru allar götur stútfullar af ferðamönnum,“ segir hún í Morgunblaðinu í dag.
Að sögn Robyn Mitchell, sölu- og markaðsstjóra hjá Radisson Blu 1919, hefur júnímánuður glæðst mikið eftir algjört hrun í gistingu í apríl og maí. Nýtingin í júní stefnir í að verða 50-70% en hefur verið 80-90% síðustu ár.