Eldur í kexverksmiðju Frón

Slökkviliðsmenn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Slökkviliðsmenn að störfum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Jim Smart

Eldur kom upp í kexverksmiðju Frón við Tunguháls í Árbænum klukkan 10:42 í morgun. Að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu leit eldurinn illa út samkvæmt fyrstu tilkynningu og voru því allar stöðvar virkjaðar.

Um leið og fyrsta stöð kom á staðinn var þó hægt að snúa við öðru viðbragði því í ljós kom að eldurinn var bundinn við eina vél í verksmiðjunni og ekki hætta á útbreiðslu að sögn slökkviliðs. Hratt og vel gekk að ná tökum á eldinum, sem var slökktur með handslökkvitækjum til að takmarka skaða á framleiðslusvæðinu. Þessa stundina er unnið að því að reykræsta vinnslusalinn.

Ekki liggur ljóst fyrir hvernig á því stóð að það kviknaði í vélinni. Ljóst er að hún er skemmd, en ekkert bendir til að frekara tjón hafi orðið í verksmiðjunni þar sem eldurinn var mjög staðbundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert