Hlaupið í Skaftá er í örum vexti og segja sjónarvottar að nú þegar sé áin orðin töluvert vatnsmeiri en hún varð í hlaupinu í síðustu viku. Við bæinn Ytri-Ása er áin orðin mjög vatnsmikil og finnst þar nú mikil jöklafýla, að sögn Jónasar Erlendssonar, ljósmyndara Morgunblaðsins.
Hann segir ána vera orðna mjög ljóta strax við Ása, sem standa ekki langt frá þjóðvegi 1, vatnið orðið mjög dökkt og mikil brennisteinslykt, mun meiri en hafi verið í hlaupinu í síðustu viku sem hafi nánast verið lyktarlaust.