Ísland er vel búið undir að hefja aftur fjöldabólusetningu gegn svínainflúensu komi til þess að ný bylgja ríði yfir á komandi misserum, að því er fram kemur í upplýsingum frá sóttvarnalækni.
Sóttvarnalæknir, Haraldur Briem, bendir á að allir fyrri heimsfaraldrar hafi gengið yfir í bylgjum. Því sé mikilvægt að til sé í landinu virkt bóluefni, en nú eru til bóluefnabirgðir fyrir meira en 100.000 manns.
Í mars á þessu ári höfðu um 150.000 manns látið bólusetja sig gegn svínainflúensu, en reglulega kemur fólk á heilsugæslustöðvar til bólusetningar. Í júní hafa um 300 manns látið bólusetja sig gegn inflúensunni, samkvæmt því sem kemur fram á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Fyrst var tilkynnt um nýjan stofn inflúensu A (H1N1) í lok apríl 2009 í Mexíkó. Hér á landi var fyrsta tilfelli inflúensunnar staðfest í maí í fyrra.
Mesta aukningin í útbreiðslu faraldursins var í október, en hann fjaraði út í árslok. Talið er að um 55.000 manns hafi fengið sjúkdóminn hér á landi árið 2009 eða um 17% þjóðarinnar. Um 170 manns voru lagðir inn á sjúkrahús og a.m.k. tveir létust af völdum svínainflúensunnar.