Syntu yfir Hvítá í ölæði

Laugarás.
Laugarás. mats.is

Þrír ungir menn syntu yfir Hvítá í Árnessýslu í ölæði nú í nótt. Athæfið er mjög hættulegt enda áin ekkert lamb að leika sér við. Mennirnir höfðu verið að skemmta sér ásamt fleirum á tjaldstæði í Laugarási þegar þeir ákváðu að fá sér sundsprett. Eftir að þeir höfðu verið fjarverandi í eina klukkustund fóru félagar þeirra að hafa áhyggjur af þeim og hringdu á lögreglu.

Lögregla mætti á svæðið ásamt björgunarsveit og var gerð leit á svæðinu. Um hálftíma síðar komu mennirnir í leitirnar, nokkuð kaldir og hraktir. Höfðu þeir þá synt yfir ána, úr Bláskógabyggð yfir í Hrunamannahrepp og gengið einhverja leið meðfram ánni hinum megin. Höfðu þeir þar meðal annars fundið hver eða heita laug til að hlýja sér við.

Hvítá er með vatnsmeiri jökulám landsins og fellur meðal annars um Gullfoss nokkru ofar. Athæfið getur ekki talist mjög gáfulegt, þótt eflaust sé hægt að stæra sig af því eftir á.

Einnig voru þrír ökumenn teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og þar af var einn grunaður um að vera einnig undir áhrifum fíkniefna. Talsverður erill var einnig í Úthlíð í Biskupstungum, þar sem skemmtanahald var og ölvun mikil.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert