Benedikt Gröndal, fyrrverandi forsætisráðherra, lést á hjúkrunarheimilinu Eir í morgun. Hann var 86 ára gamall. Benedikt var fæddur á Hvilft í Önundarfirði 7. júlí 1924.
Benedikt lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1943 og BA-prófi frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum 1946 með sögu sem aðalgrein. Hann stundaði framhaldsnám í Oxford árið 1947.
Benedikt var íþróttafréttaritari Alþýðublaðsins og jafnframt blaðamaður þar árin 1938 - 1943, fréttastjóri 1946 - 1950. Hann var ritstjóri Alþýðublaðsins 1959 - 1969 og var þá skipaður forstöðumaður Fræðslumyndasafns ríkisins.
Benedikt sat í útvarpsráði frá 1956 - 1971 og var formaður þess frá 1957 - 1959 og frá 1960 - 1971. Hans helsta baráttumál þar var löngum stofnun íslensks sjónvarps. Hann var jafnframt formaður Alþýðuflokksins árin 1974 - 1980. Hann sat samfleytt á þingi frá 1956 - 1982.
Benedikt átti sæti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1966 og var jafnframt fulltrúi á hafréttarráðstefnum Sameinuðu þjóðanna.
Benedikt var skipaður utanríkisráðherra 1. september 1978. Hann var forsætis- og utanríkisráðherra frá 1979-1980. Þá var hann sendiherra í Svíþjóð 1982—1987, í Austurlöndum 1987—1989 og hjá Sameinuðu þjóðunum í New York 1989—1991.
Foreldrar Benedikts voru Sigurður Gröndal og Mikkelína María Sveinsdóttir.
Hann skilur eftir sig eiginkonu sína, Heidi Gröndal, og synina Jón og Einar.