Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir ákvörðun fyrirtækisins um að meina HOB vínum sölu á Tempt síder vegna djarfra umbúða standa. „Þetta er skýrt í vöruvalsreglunum. Þegar óskað er eftir vöru er farið yfir málin og varan metin á grundvelli laga og verkreglna.“
Hún kveður nefnd fara yfir málið en endanlega ákvörðun vera í höndum forstjóra. Sigrún segir það ekki oft koma fyrir að vörum sé hafnað en það þekkist engu að síður.
„Ég man nú reyndar ekki eftir því en það vísaði einhver í Sexy Lager fyrir einhverjum árum þar sem skafa mátti léttklædda stúlku úr spjörunum. Þetta er ekki algengt.“
Sigrún Ósk segir ÁTVR ekki hafa borist stefna en kveður fyrirtækið ætla að taka til varna. „Eins og gerist þegar manni er stefnt, við bara förum í það ferli,“ segir Sigrún sem er viss um lögmæti ákvörðunar ÁTVR. „Auðvitað annars hefðum við ekki tekið þess ákvörðun. En þetta er eins og aðrar ákvarðanir. Það er réttur þeirra sem verða fyrir höfnun að leita réttar síns, við skiljum það vel,“ segir Sigrún sem segir ÁTVR ætla að lúta niðurstöðu dómsins, hver sem hún verður.