Gagnrýnir DNA-rannsókn

Bobby Fischer.
Bobby Fischer.

Filippseyskur lögmaður konu, sem höfðaði faðernismál og hélt því fram að skákmaðurinn Bobby Fischer væri faðirJinky Young, gagnrýnir hvernig staðið var að töku lífssýnis úr Fischer. Þá gagnrýnir hann einnig að íslenskur lögmaður konunnar hafi lýst því yfir að faðernismálið væri fallið niður eftir að niðurstöður DNA-rannsóknarinnar leiddu í ljós að Fischer gæti ekki verið faðir stúlkunnar.

Þetta kemur fram á vef bandaríska blaðsins New York Times. Þar segir, að lögmaðurinn Samuel Estimo hafi í gær sent tölvupósta, sem fóru á milli hans og Þórðar Bogasonar, lögmanns, til ýmissa fjölmiðla, þar á meðal New York Times. Þórður er lögmaður Marilyn Young og Jinky, dóttur hennar, hér á landi. 

Meðal tölvupóstanna er lýsing Þórðar á því hvernig lífssýni var tekið úr líkamsleifum Fischers í Laugardælakirkjugarði í sumar. Samt kemur fram í tölvupósti Þórðar, að tölvupósturinn sé eingöngu ætlaður Estimo því íslensk stjórnvöld hafi gefið ströng fyrirmæli um að fjölmiðlum verði ekki veittar nákvæmar upplýsingar um hvernig staðið var að sýnatökunni.

Í tölvupósti Þórðar, sem New York Times birtir, kemur einnig fram, að auk hans hafi lögmenn Miyako Watai, sem segist hafa verið eiginkona Fischers, og bræðranna Alexanders og Nicholas Targ, systursona Fischers, verið viðstaddir en þessir aðilar gera kröfu um arf eftir Fischer. 

Athöfnin fór fram af virðingu við Fischer

Í tölvupósti Þórðar, sem New York Times vitnar til, segir m.a. að mjög snemma dags 5. júlí hafi sérfræðingar frá Kirkjugörðum Reykjavíkur opnað gröf Fischers og gert réttarmeinafræðingum kleift að standa við hlið kistunnar í gröfinni. Klukkan 4 um morguninn hafi lögmenn verið kallaðir til, þeir Árni Vilhjálmsson, lögmaður Watai, og Guðjón Ólafur Jónsson, lögmaður Targ-bræðra, auk Þórðar.  Einnig hafi verið viðstaddir Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprestur, Óskar Reykdalsson, lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, tveir réttarmeinafræðingur sem tóku sínin og lögreglumenn sem lokuðu svæðinu.

Þegar nauðsynlegum undirbúningi var lokið var tjaldað yfir gröfina. Þórður segir, að síðan hafi læknarnir opnað lok kistunnar og tekið sjö sýni. Var kistunni svo lokað á ný en henni var aldrei lyft úr gröfinni. Séra Kristinn blessaði gröfina og henni var lokað.  

„Morguninn 5. júlí var afar mildur og fallegur sumarmorgun í Laugardælum, vindurinn var hæglátur eins og athöfnin öll. Hún fór fram af virðingu við Bobby Fischer og í algeru einrúmi og þögn. Ég er afar þakklátur lögreglustjóranum, hr. (Ólafi Helga) Kjartanssyni, fyrir það hvernig hann meðhöndlaði þetta viðkvæma mál," segir Þórður m.a. í tölvupóstinum og þakkar einnig öðrum þeim sem komu að málinu.

Ekki samkvæmt hefðbundnum aðferðum

Estimo segir hins vegar í bréfinu til fjölmiðla í gær að, að uppgröfturinn hafi ekki farið fram samkvæmt hefðbundnum aðferðum. Lyfta hefði átt kistunni úr gröfinni og opna hana til að sannreyna að sýnin væru tekin úr líkamsleifum Fischers. Segir Estimo, að greftrun Fischers á sínum tíma hafi verið vafasöm.  „Hver veit hvað kynni að hafa gerst þarna frá útförinni og þar til uppgröfturinn fór fram?" spyr Estimo.

Þá gagnrýnir Estimo einnig, að Þórður skyldi hafa lýst því yfir við fjölmiðla, að faðernismálið væri fallið niður áður en Marilyn Young fékk afrit af gögnum um niðurstöður DNA-rannsóknarinnar í hendur. Þórður segist í tölvupóstum geta staðhæft, að sýnatakan hafi farið fram með reglubundnum hætti og um hafi verið að ræða líkamsleifar Fischers. Varar hann Estimo við að koma fram með ásakanir um að hugsanlega hafi verið skipt um lík í kistunni eins og hann gefur í skyn. 

Þá segist Þórður aðeins hafa staðfest það við fjölmiðla, sem var þegar komið fram og sem var rétt, að niðurstöður DNA-rannsóknarinnar sýndu að Fischer gæti ekki verið faðir Jinky Young. 

Estimo segir í bréfi sínu til fjölmiðlanna: „Konurnar tvær, sem stóðu hjarta hans næst, eru Jinky Young og Miyoko Watai og hefði hann gert erfðaskrá hefði hann arfleitt þær tvær að öllum eigum sínum." 

Umfjöllun New York Times 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert