Starfsmenn ráðuneyta á skólabekk

Áformað er að Stjórnsýsluskólinn standi fyrir námskeiðum fyrir nýja ráðherra …
Áformað er að Stjórnsýsluskólinn standi fyrir námskeiðum fyrir nýja ráðherra og aðstoðarmenn þeirra mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsætisráðuneytið hefur ákveðið að efla endurmenntun og þjálfun starfsmanna ráðuneytanna með því að setja á fót Stjórnsýsluskóla Stjórnarráðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Segir þar að  áhersla hafi verið lögð á það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem út kom fyrr á árinu að fjölga þyrfti í þeim hópi starfsmanna Stjórnarráðsins sem eru vel menntaðir og þjálfaðir og hafa getu til að takast á við mjög flókin og krefjandi verkefni.

Nýir ráðherrar og aðstoðarmenn sendir á námskeið

„Eins og rætt var í ríkisstjórn í morgun verður fyrsta verkefni Stjórnsýsluskólans að skipuleggja námskeið sem haldið yrði á sex mánaða fresti fyrir alla nýja starfsmenn í Stjórnarráðinu.

Þar yrði gefið yfirlit yfir starfsemi Stjórnarráðins, hlutverk þess og vinnuaðferðir, lagalega umgjörð, fjárlagaferlið, þátttöku í samstarfi innan Evrópska efnahagssvæðisins, uppbyggingu stjórnsýslunnar, lög sem um hana gilda og réttindi og skyldur starfsmanna.

Nýliðafræðslunni verður síðan fylgt eftir með markvissri endurmenntun fyrir starfsmenn í samstarfi við fjármálaráðuneytið. Fyrsta námskeiðið er áformað í lok september fyrir alla þá sem hafið hafa störf hjá ráðuneytunum á þessu ári. 

Einnig er áformað að Stjórnsýsluskólinn standi fyrir námskeiðum fyrir nýja ráðherra og aðstoðarmenn þeirra en slík fræðsla er meðal tillagna starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis," segir í tilkynningu.

Í skýrslunni „Starfsskilyrði stjórnvalda" sem unnin var af nefnd undir forsæti Páls Hreinssonar þáverandi dósents og kom út árið 1999 að hér á landi væri ekki starfræktur stjórnsýsluskóli fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga eins og tíðkast í flestum nágrannalanda okkar.

Þá væri ekki í gildi markviss endurmenntunarstefna sem fæli það í sér að þegar nýir starfsmenn koma til starfa, sem fá það hlutverk að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu borgaranna, væru sendir á grunnnámskeið til að læra almennar reglur stjórnsýsluréttarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka