Gosráðstefna fær heimsatygli

Eldgosið í Eyjafjallajökli vekur enn athygli umheimsins.
Eldgosið í Eyjafjallajökli vekur enn athygli umheimsins. mbl.is/Árni Sæberg

Ráðstefna, sem Flugakademía Keilis stendur fyrir hér á landi í september um eldgosið í Eyjafjallajökli og áhrif öskufalls á flugrekstur, er farin að vekja mikla athygli. Samkvæmt frétt Reuters er von á yfir 300 sérfræðingum í jarðvísindum og flugmálum víðs vegar að úr heiminum. Ráðstefnan fer fram 15.-16. september nk. á Ásbrú, gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Ekki hefur á seinni árum orðið jafn mikil röskun á alþjóðaflugi og vegna öskunnar frá Eyjafjallajökli. Talið er að flugfélögin hafi tapað meira en 1,7 milljörðum dollara, eða yfir 200 milljörðum króna. Loka þurfti flestum flugvöllum í Evrópu um tíma og áhrif gossins teygðu sig til nær allra heimsálfa. Meðal þess sem rætt verður á ráðstefnunni hvernig beri að meta hættu á öskudreifingu í háloftunum en fram hefur komið gagnrýni á að það mat sé of strangt. Héldu sum flugfélög því fram að vel hefði verið að hægt að fljúga um háloftin og hætta á að aska eða gjóska bærist í flughreyfla hefði verið ofmetin.

Þegar hafa um 200 manns skráð sig til þátttöku á ráðstefnunni en þar munu um 50 fyrirlesarar taka til máls, íslenskir og erlendir. Verndari ráðstefnunnar er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Þar verður leitast við að svara spurningum eins og hvað gerðist í Eyjafjallajökli, af hverju lokaðist lofthelgi Evrópu, hvaða reglum var fylgt og hvaða lærdóm má draga af þessum vanda. Einnig verður fjallað um hvort og hvernig má draga úr umfangi áhrifa öskudreifingar á flugumferð og hverjir eigi að taka ákvarðanir um hvernig minnka má áhættu vegna hennar. 

Meðal þeirra sem munu taka þátt í ráðstefnunni er Eric Moody, fyrrverandi flugstjóri hjá British Airways, en hann var við stjórnvölinn þegar breiðþota hans lenti í öskufalli við Jövu 24. júní 1982. Þá drapst á öllum fjórum hreyflum þotunnar en flugmönnum tókst að koma þeim í gang á ný og lenti vélin heilu og höldnu. Mun flugstjórinn skýra frá reynslu sinni í þessu flugi. Þá hafa nokkrir af fremstu vísindamönnum heims á sviði eldfjallafræða og öskudreifingar staðfest þátttöku sína, að því er fram kemur á vef Ásbrúar.

Helstu innlendu samstarfsaðilar Keilis um skipulag ráðstefnunnar eru samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Flugmálastjórn Íslands, flugfélögin Atlanta, Icelandair og Flugfélag Íslands, Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Félag íslenskra atvinnuflugmanna svo og Verkfræðingafélag Íslands og Tæknifræðingafélag Ísands. Þá hefur verið leitað samstarfs við ýmsa erlenda aðila svo sem samtök flugfélaga, flugmannafélaga, evrópskra og alþjóðlegra stofnana á sviði flugsins og vísindastofnana. 

Eftirmálar gossins í sviðsljósinu

Erlendir fjölmiðlar fjalla enn um eldgosið í Eyjafjallajökli og eftirmála þess, þó að nokkuð sé um liðið síðan eldstöðin lét á sér kræla. Jarðvísindamenn hér á landi hafa þó ekki viljað lýsa enn yfir formlegum goslokum. Fordæmi eru fyrir því að Eyjafjallajökull hafi hvílt sig í einhverja mánuði þar til að jarðhræringar byrjuðu á ný.

Í umfjöllun BBC um helgina er fjallað um efnahagsleg áhrif eldgossins á íslenska ferðaþjónustu og ummerkin á gossvæðinu. Birt er myndband þar sem Ársæll Hauksson fjallaleiðsögumaður segir fréttamanni BBC frá því sem fyrir augu ber við eldstöðvarnar, fjórum mánuðum eftir að gosið hófst.



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert