Sigrún Pálína Ingvarsdóttir segir, að Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, fari ekki með rétt mál í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér um aðkomu sína að máli Ólafs Skúlasonar, þáverandi biskups Íslands, árið 1996.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Sigrúnu Pálínu, sem hún hefur sent til fjölmiðla.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
Ég vil hér með leiðrétta þær rangfærslur sem Karl Sigurbjörnsson kom með í bréfi sínu til allra fjölmiðla um að að ég hafi kært Ólaf Skúlason. Það er auðvitað með ólíkindum að Karl skuli ekki umgangast sannleikann með meiri virðingu en þetta, að hann snýr öllu á haus til að það líti betur út fyrir sig og Ólaf.Þann 11. mars 1996 sendi Ólafur Skúlason kröfu um opinbera rannsókn og málshöfðun vegna rangs sakarburðar og ærumeiðandi aðdróttana til ríkissaksóknara.
Sakborningar voru Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, Stefanía Þorgrímsdóttir ásamt þeirri þriðju. Sú fjórða var ekki ákærð vegna þess að hún hafði skrifað undir yfirlýsingu þar sem hún dró framburð sinn til baka, fyrir tilstuðlan Karls Sigurbjörnssonar. Fjöldi vitna voru kölluð til og eftir langa erfiða daga var Ólafi ráðlagt af ríkissaksóknara að draga ákærur sínar til baka.
Virðingarfyllst
Sigrún Pálína Ingvarsdóttir
Biskup: Tók ekki þátt í þöggun