Passaði við blóðugt skófar

Frá vettvangi í Hafnarfirði
Frá vettvangi í Hafnarfirði mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Skór mannsins sem situr í gæsluvarðhaldi í tengslum við morðið á Hannesi Þór Helgasyni, passar við blóðugt skófar sem fannst á heimili hins látna, samkvæmt heimildum mbl.is.

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í morgun er ein af ástæðum þess að maðurinn er nú í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að morðinu í Hafnarfirði sú að lögreglan fann blóð á skóm hans.

Lögreglan lagði hald á skóna þegar hún handtók manninn í fyrra skiptið. Við rannsókn kom í ljós að blóð var á skónum og að reynt hefði verið að þrífa það af þeim.

Lífsýnarannsókn á blóðinu er ekki lokið og er því ekki ljóst úr hverjum það er.

Maðurinn var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á föstudag. Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að ný gögn í málinu hefðu gert það að verkum að rökstuddur grunur væri talinn vera fyrir hendi um að hann ætti aðild að andláti Hannesar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka