Engin uppgjöf í erfðamáli Fischer

Bobby Fischer
Bobby Fischer mbl.is/Sverrir

Þrátt fyrir að lífsýni úr Bobby Fischer sýni svart á hvítu að ekki sé möguleiki á því að hann sé faðir Jinky Young þa virðist lögfræðingur stúlkunnar og móður hennar Marilyn Young, Samuel Estimo, ekki vera á þeim buxunum að gefast upp. 

Samkvæmt því sem fram kemur á vef New York Times þá hefur Estimo óskað eftir því við lögfræðing Young mæðginanna á Íslandi, Þórð Bogason, að halda erfðamálinu áfram. Segja þær að Fischer hafi sjálfur talið að hann væri faðir Jinky þar sem þær hafa meðal annars lagt fram póstkort þar sem hann skrifar undir sem „pabbi". Líkt og fram hefur komið hefur hart verið deilt um hver sé lögmætur erfingi skákmeistarans sem ekki lét eftir sig erfðaskrá. 

Á Þórður að hafa látið hafa eftir sér að lífsýni sýni að Fischer geti ekki verið faðir stúlkunnar. 

Á Estimo að hafa sent gögn á fjölmiðla, þar á meðal New York Times um að Fischer hafi litið á sig sem föður stúlkunnar. Móðir hennar hefur hins vegar ekki viljað ræða við fjölmiðla um kröfur þeirra nema að fá greitt fyrir viðtöl. 

Meðal annars á Estimo að hafa sent myndir af húsi sem hann segir Fischer hafa keypt fyrir þær mæðgur á Filippseyjum. 

Niðurstaða DNA-rannsóknar á lífsýnum úr Bobby Fischer og filippseyskrar stúlku, Jinky Young, er að Fischer sé ekki faðir stúlkunnar. Því hefur barnsfaðernismálið verið fellt niður en enn er deilt um hver eigi að erfa Fischer, systursynir hans eða meint eiginkona Fischers, Myoko Watai.

Þórður Bogason, lögmaður stúlkunnar, staðfesti við mbl.is í ágúst að réttarmeinadeild Landspítalans hefði sent lögmönnum sem koma að málinu þann úrskurð sinn að Jinky Young gæti ekki verið dóttir Fischers.

Marilyn Young, sem býr á Filippseyjum, hélt því fram að hún hefði eignast barn með Fischer árið 2001. Hæstiréttur féllst á kröfu hennar um að tekið yrði lífsýni úr Fischer til að fá úr því skorið hvort þetta væri rétt.

Fram hefur komið að Jinky heimsótti Fischer eftir að hann kom til Íslands. Meðal gagna, sem lögð voru fyrir dómstóla á Íslandi, var mynd af Young, Jinky og Fischer uppi í rúmi árið 2004 og póstkort til Jinky frá Fischer en á kortið er skrifað „Daddy“. Mæðgurnar heimsóttu Fischer hér á landi árið 2005.

Deilur um hver sé lögmætur erfingi Fischers eru enn til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur og verður næst réttað í málinu í næsta mánuði.

Í desember í fyrra felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að ekki þyrftu að fara fram opinber skipti á dánarbúi Fischers. Féllst Hæstiréttur þar með á kröfu systursona Fischer um að opinber skipti færu fram og er niðurstaða Hæstaréttar byggð á því að ekki hafi verið lögð fram fullnægjandi sönnun um að Fischer og Myoko Watai hafi gengið í hjónaband. Watai hefur ekki orðið við kröfu dómstólsins að leggja fram fullnægjandi gögn sem staðfesta giftingu hennar og Fischers.

Sjá nánar hér

Gröf skákmeistarans
Gröf skákmeistarans mbl.is/Sigmundur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert