Stefán verðlaunaður ásamt Banderas

Stefán Einarsson við verðlaunaafhendinguna í Madrid í dag, þriðji frá …
Stefán Einarsson við verðlaunaafhendinguna í Madrid í dag, þriðji frá vinstri. Honum á vinstri hönd er Hennar hátign Sofia Spánardrottning en Rebeca Grynspan, aðstoðarforstjóri UNDP honum á hægri hönd. Því næst er Afsané Bassir-Pour, forstjóri UNRIC; leikarinn Antonio Banderas, Soraya Rodríguez Ramos, undirráðherra þróunarmála í ríkisstjórn Spánar og Jacques Séguéla, formaður dómnefndar.

Stefáni Einarssyni, hönnunarstjóra voru í dag afhent fyrstu verðlaun í samkeppni Sameinuðu þjóðanna um bestu auglýsinguna til að vekja athygli á baráttunni gegn fátækt í heiminum. Soffía Spánardrottning stýrði athöfninni  í Madrid, en spænski leikarinn Antonio Banderas var heiðraður við sama tilefni fyrir störf sín í þágu Sameinuðu þjóðanna.

Í þakkarræðu sinni bar Stefán Einarsson Ísland á dögum efnahagshrunsins saman við þann daglega veruleika sem blasti við stórum hluta mannkynsins í þróunarríkjunum. „Okkar kreppa er að mestu lúxuskreppa, við höfðum of mikið og höfum ennþá nóg. Við ættum að minnast þess með þakklæti á hverjum degi að við erum á meðal þeirra fáu heppnu í heiminum sem höfum aðgang að hreinu vatni, mat, læknisþjónustu, menntun, húsnæði og öryggi."

Leikarinn Antonio Banderas var heiðraður við sama tækifæri fyrir störf sín sem góðgerða sendiherra Sameinuðu þjóðanna. Banderas sagði að það skipti sköpum í baráttunni gegn fátækt í heiminum að almenningur væri upplýstur um gang mála. Stefán Einarsson fékk fyrstu verðlaun í samkeppninni „Unleash your creativity against poverty", sem Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Brussel efndi til Evrópu. Alls bárust 2030 auglýsingar en auk þess að sigra keppnina átti Stefán auglýsingu í þriðja sæti og alls þrjár af þrjátíu sem valdar voru til að keppa til úrslita. „Hann var í rauninni sjálfur sinn skæðasti keppinautur," sagði Jacques Séguéla, formaður dómnefndar og varaformaður Havas, stærstu auglýsingasamsteypu Evrópu, þegar hann afhenti Stefáni verðlaunin.

Fyrstu verðlaunin eru 5.000 Evrur en þau eru kennd við formennsku Spánar í Evrópusambandinu árið 2010. Sigurauglýsingin nefnist: „Kæru leiðtogar, við bíðum enn", og er þar vísað til loforða leiðtoga heims um að helminga fátækt í heiminum fyrir árið 2015.

Leiðtogar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna koma saman til fundar á Allsherjarþingi samtakanna í New York 20. - 22. september til að fara yfir stöðuna tíu árum eftir að svokölluðu þúsaldaryfirlýsing var gefin út en þar var því heitið að helminga fjölda fátækra í heiminum með því að stefna að því að ná ákveðnum þróunarmarkmiðum fyrir árið 2015. „Ég vona svo sannarlega að auglýsing mín geti orðið vopn í baráttunni til að vekja fólk til vitundar um þúsaldarmarkmiðin og hvatt leiðtogana til að standa við loforðin um að helminga fátækt fyrir 2015," sagði Stefán Einarsson í ræðu sinni í Madrid.

Stefán Einarsson er 45 ára gamall Borgnesingur, grafískur hönnuður að mennt og hönnunarstjóri auglýsingastofunnar Hvíta hússins í Reykjavík. Auglýsingin hefur og mun birtast í mörgum af helstu stórblöðum Evrópu sem voru samstarfsaðilar Sameinuðu þjóðanna.  Má nefna Liberation (Frakklandi), the Guardian (Bretlandi) , Metro International (Bandaríkjunum, Danmörku, Brasílíu, Rússlandi og fl.) , Stampa (Ítalíu) og El Pais (Spáni) svo eitthvað sé nefnt.

Sigurauglýsingin nefnist: „Kæru leiðtogar, við bíðum enn
Sigurauglýsingin nefnist: „Kæru leiðtogar, við bíðum enn", og er þar vísað til loforða leiðtoga heims um að helminga fátækt í heiminum fyrir árið 2015.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert