Stefán verðlaunaður ásamt Banderas

Stefán Einarsson við verðlaunaafhendinguna í Madrid í dag, þriðji frá …
Stefán Einarsson við verðlaunaafhendinguna í Madrid í dag, þriðji frá vinstri. Honum á vinstri hönd er Hennar hátign Sofia Spánardrottning en Rebeca Grynspan, aðstoðarforstjóri UNDP honum á hægri hönd. Því næst er Afsané Bassir-Pour, forstjóri UNRIC; leikarinn Antonio Banderas, Soraya Rodríguez Ramos, undirráðherra þróunarmála í ríkisstjórn Spánar og Jacques Séguéla, formaður dómnefndar.

Stefáni Ein­ars­syni, hönn­un­ar­stjóra voru í dag af­hent fyrstu verðlaun í sam­keppni Sam­einuðu þjóðanna um bestu aug­lýs­ing­una til að vekja at­hygli á bar­átt­unni gegn fá­tækt í heim­in­um. Soffía Spán­ar­drottn­ing stýrði at­höfn­inni  í Madrid, en spænski leik­ar­inn Ant­onio Band­eras var heiðraður við sama til­efni fyr­ir störf sín í þágu Sam­einuðu þjóðanna.

Í þakk­arræðu sinni bar Stefán Ein­ars­son Ísland á dög­um efna­hags­hruns­ins sam­an við þann dag­lega veru­leika sem blasti við stór­um hluta mann­kyns­ins í þró­un­ar­ríkj­un­um. „Okk­ar kreppa er að mestu lúxuskreppa, við höfðum of mikið og höf­um ennþá nóg. Við ætt­um að minn­ast þess með þakk­læti á hverj­um degi að við erum á meðal þeirra fáu heppnu í heim­in­um sem höf­um aðgang að hreinu vatni, mat, lækn­isþjón­ustu, mennt­un, hús­næði og ör­yggi."

Leik­ar­inn Ant­onio Band­eras var heiðraður við sama tæki­færi fyr­ir störf sín sem góðgerða sendi­herra Sam­einuðu þjóðanna. Band­eras sagði að það skipti sköp­um í bar­átt­unni gegn fá­tækt í heim­in­um að al­menn­ing­ur væri upp­lýst­ur um gang mála. Stefán Ein­ars­son fékk fyrstu verðlaun í sam­keppn­inni „Un­leash your creati­vity against po­verty", sem Upp­lýs­inga­skrif­stofa Sam­einuðu þjóðanna í Brus­sel efndi til Evr­ópu. Alls bár­ust 2030 aug­lýs­ing­ar en auk þess að sigra keppn­ina átti Stefán aug­lýs­ingu í þriðja sæti og alls þrjár af þrjá­tíu sem vald­ar voru til að keppa til úr­slita. „Hann var í raun­inni sjálf­ur sinn skæðasti keppi­naut­ur," sagði Jacqu­es Séguéla, formaður dóm­nefnd­ar og vara­formaður Havas, stærstu aug­lýs­inga­sam­steypu Evr­ópu, þegar hann af­henti Stefáni verðlaun­in.

Fyrstu verðlaun­in eru 5.000 Evr­ur en þau eru kennd við for­mennsku Spán­ar í Evr­ópu­sam­band­inu árið 2010. Siguraug­lýs­ing­in nefn­ist: „Kæru leiðtog­ar, við bíðum enn", og er þar vísað til lof­orða leiðtoga heims um að helm­inga fá­tækt í heim­in­um fyr­ir árið 2015.

Leiðtog­ar aðild­ar­ríkja Sam­einuðu þjóðanna koma sam­an til fund­ar á Alls­herj­arþingi sam­tak­anna í New York 20. - 22. sept­em­ber til að fara yfir stöðuna tíu árum eft­ir að svo­kölluðu þús­ald­ar­yf­ir­lýs­ing var gef­in út en þar var því heitið að helm­inga fjölda fá­tækra í heim­in­um með því að stefna að því að ná ákveðnum þró­un­ar­mark­miðum fyr­ir árið 2015. „Ég vona svo sann­ar­lega að aug­lýs­ing mín geti orðið vopn í bar­átt­unni til að vekja fólk til vit­und­ar um þús­ald­ar­mark­miðin og hvatt leiðtog­ana til að standa við lof­orðin um að helm­inga fá­tækt fyr­ir 2015," sagði Stefán Ein­ars­son í ræðu sinni í Madrid.

Stefán Ein­ars­son er 45 ára gam­all Borg­nes­ing­ur, graf­ísk­ur hönnuður að mennt og hönn­un­ar­stjóri aug­lýs­inga­stof­unn­ar Hvíta húss­ins í Reykja­vík. Aug­lýs­ing­in hef­ur og mun birt­ast í mörg­um af helstu stór­blöðum Evr­ópu sem voru sam­starfsaðilar Sam­einuðu þjóðanna.  Má nefna Li­berati­on (Frakklandi), the Guar­di­an (Bretlandi) , Metro In­ternati­onal (Banda­ríkj­un­um, Dan­mörku, Brasí­l­íu, Rússlandi og fl.) , Stampa (Ítal­íu) og El Pais (Spáni) svo eitt­hvað sé nefnt.

Sigurauglýsingin nefnist: „Kæru leiðtogar, við bíðum enn
Siguraug­lýs­ing­in nefn­ist: „Kæru leiðtog­ar, við bíðum enn", og er þar vísað til lof­orða leiðtoga heims um að helm­inga fá­tækt í heim­in­um fyr­ir árið 2015.
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka