Kynntu kenningu um Lewis taflmenn í Skotlandi

Lewis kóngur.
Lewis kóngur.

Eftir heimsókn Guðmundar G. Þórarinssonar og viðræður hans við fræðimenn breska þjóðminjasafnsins á föstudag útiloka þeir ekki að þessir merku gripir og fornminjar geti verið af íslenskum uppruna. 


Í gær var haldin málstefna um Lewis taflmennina  í skoska þjóðminjasafninu í Edinborg þar sem nú stendur yfir sýning á taflmönnunum. Þar kynnti Guðmundur kenningu sína við góðar undirtektir.  Farið var fögrum orðum um íslenskar gullaldarbókmenntir og skoða mætti þessa fornu taflmenn í ljósi Íslendingasagnanna,  hvort tveggja ómetanlegt fyrir norður-evrópska menningu. Dr. David Caldwell og Dr. Alex Woolf gagnrýndu kenningar Guðmundar en hann svaraði fullum hálsi. 

 
Í The Scotsman sagði talsmaður British Museum að taflmennirnir séu hugsanlega íslenskir.  Þá  eru Lewis listmunirnir sagðir vera merkustu taflmenn sögunnar og eru nú taldir meðal 5 mikilvægustu fornleifa í eigu breska Þjóðminjasafnsins og kennir þar þó margra grasa.


Athygli vekur að á forsíðu leiðarvísis British Museum trónir mynd af "berserknum" , staðgengli hróksins. Guðmundir telur líklegast að taflmennirnir hafi verið skornir út úr rostungstönnum af Margréti hinni högu í Skálholti 1180-1200 og lærlingum hennar undir handleiðslu Páls Jónssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert