Víðir Smári tekur sæti á Alþingi

Víðir Smári Petersen
Víðir Smári Petersen

Víðir Smári Petersen háskólanemi tók í dag sæti á Alþingi í fjarveru Jóns Gunnarssonar. Víðir Smári hefur ekki áður tekið sæti á þinginu. Óli Björn Kárason og Rósa Guðbjartsdóttir voru raunar framar í röðinni en þau áttu ekki kost á því að sækja þing að þessu sinni.

Víðir Smári er yngsti þingmaður sem sest hefur á Alþingi frá upphafi, aðeins 21 árs og 319 daga gamall.  Yngsti maður sem tekið hefur sæti á þingi hingað til er Sigurður Magnússon sem tók sæti á þingi árið 1971, þá  23 ára og 167 daga, samkvæmt tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
 
Þrátt fyrir ungan aldur er Víðir að skrifa meistararitgerð sína í lögfræði á sviði mannréttinda auk þess að vinna með námi á einni stærstu lögmannsstofu landsins, LEX. Þá hefur hann sinnt aðstoðarkennslu í Háskóla Íslands á sviði kröfuréttar og mun nú í haust  aðstoða við kennslu í réttarheimspeki. 

Víðir Smári var í liði Háskóla Íslands í norrænu málflutningskeppninni síðastliðið sumar, sem snýr að málflutningi á sviði mannréttinda. Jafnframt hefur Víðir Smári getið sér gott orð sem spurningaljón - en hann var í sigurliði Kópavogs í Útsvari, spurningakeppni sveitarfélaga, tvö ár í röð.

Víðir Smári tók burtfararpróf á klarínett frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2008. Hann hefur verið formaður stjórnar Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins undanfarin þrjú ár, er í popphljómsveitinni Mikado, auk þess að hafa leikið með fjölmörgum blásara- og sinfóníuhljómsveitum í gegnum árin.

Þá hefur Víðir Smári verið virkur í félagsstörfum. Hann er í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, ritstjóri Stefnis, tímarits um þjóðmál og varamaður í lista- og menningarráði Kópavogsbæjar. Einnig hefur hann setið í ritnefnd Úlfljóts (tímarits laganema), og verið formaður, varaformaður og gjaldkeri Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi..
 
Þá var hann formaður málfundafélags Menntaskólans í Kópavogi þegar hann var nemandi þar og tók þátt í Gettu betur fyrir hönd skólans þrjú ár í röð, auk þess að þjálfa liðið í þrjú ár.

Af fyrri störfum Víðis Smára má nefna að hann var blaðamaður á Fréttablaðinu tvö sumur. Hann brautskráðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Kópavogi 17 ára gamall þar sem hann fékk m.a. verðlaun fyrir bestan námsárangur auk fjölda annarra verðlauna," segir í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Víðir Smári mun sitja á þingi næstu tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka