Grátrana hefur síðustu daga sést á Skipalóni í Eyjafirði. Þorgils Sigurðsson læknir á Akureyri náði góðum myndum af fuglinum þar sem hann var að spóka sig með nokkrum álftum.
Grátranan var í síðustu viku á bænum Vallarnesi í Skagafirði, en flaug síðan yfir á Skipalón.
Á vef Náttúrustofu Norðurlands vestra segir að Grátrönur (Grus grus) séu frekar stórir fuglar, hæð 110-120 cm og vænghaf 220-245 cm. Eru þær frekar sjaldgæfir flækingar en árið 2006 höfðu sést 39 fuglar hér á landi. Er þetta í annað skipti sem grátrana sést í Skagafirði en hún hefur áður sést við bæinn Syðri Brekkur í Blönduhlíð í ágúst 2006.
Talvert hefur verið um flækingsfugla hér á landi í haust. Á vefnum fuglar.is segir frá því að Grímuskríkja hafi sést í Heimaey í dag. Þetta mun vera í annað sinn sem slíkur fugl sést hér á landi.