Tveir leiðsögumenn Íslenskra fjallaleiðsögumanna komu auga á klifurlínu er þeir klifu nýja leið upp vesturhlíð Hvannadalshnjúks 22. september sl. Ekki er vitað með vissu hvaða lína þetta er og hefur verið auglýst eftir hvort einhverjir fjallamenn hafi farið um hlíðina. Engir hafa hins vegar gefið sig fram.
Ýmsar spurningar hafa vaknað og meðal þess sem menn velta nú fyrir sér er hvort línan hafi tilheyrt tveimur þýskum fjallgöngumönnum sem hurfu sporlaust á svæðinu í ágúst 2007. En mikil leit var gerð að þeim Matthias Hinz og Thomas Grundt í nágrenni Svínafellsjökuls.
Fram kemur í Fjallageitinni, sem er fréttaskeyti Íslenskra fjallaleiðsögumanna, að þeir Leifur Örn Svavarsson og Björgvin Hilmarsson hafi klifið upp Svínafellsjökul og upp með Svínakambi. Klifurleiðin sé um 400 metra há og sé að mestu um brattar harðfennisbrekkur með stuttum íshöftum. Erfiðasta klifrið sé í efstu 100 metrunum í bröttum ís með lóðréttum höftum.
Segir að undir brattasta hluta leiðarinnar hafi félagarnir komið auga á klifurlínu í næsta gilskorningi við þann sem þeir klifu. Línan hafi verið skorðuð í sprungu á milli steina og hafi endarnir legið niður í snjóinn í bröttu gilinu.
Með bratt jökulstálið yfir höfðinu og óvissuna um hversu langan tíma tæki að klára klifrið sem eftir væri ákváðu þeir Leifur og Björgvin að halda áfram í stað þess að taka tíma í að skoða línuna frekar, segir í fréttaskeytinu.
„Þessi lína vekur vissulega spurningar. Aðeins er þekkt ein uppganga upp hlíðina, fyrir 24 árum. Þá skáskar Helgi Benediktsson leið eftir stalli sem er í miðri hlíðinni. Auglýst hefur verið eftir hvort einhverjir fjallamenn hafi farið um hlíðina en engir hafa gefið sig fram,“ segir í Fjallageitinni.
Þá sé vitað Þjóverjarnir tveir hafi verið með tjaldbúðir í jaðri Svinafellsjökuls beint undir vesturhlíð Hvannadalshnjúks. Þeir hafi verið með áform um að klífa fjöll í nágrenninu og mögulegt sé að þarna sé komin vísbending um afdrif þeirra.
„Hvort svo sé og hvaða atburðarrás hafi þá átt sér stað verður ekki fullyrt um fyrr en frekari skoðun á línunni hefur farið fram,“ segir ennfremur í Fjallageitinni.