Birkiskógar óskemmdir eftir eldgosið

Þórsmörk
Þórsmörk

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra heimsótti nýverið Þórsmörk og Goðaland í boði Skógræktar ríkisins til að skoða áhrif öskugossins í Eyjafjallajökli á birkiskóga. Skógarnir virðast ekki hafa borið neinn skaða af öskufalli úr Eyjafjallajökli. Þvert á móti virðist spretta skógargróðurs hafa verið með allra besta móti, hvort sem það er eingöngu vegna ákaflega hlýs sumars eða einnig vegna áburðaráhrifa af öskunni. Þetta kemur fram á vef umhverfisráðuneytisins.

„Var niðurstaða ferðarinnar að sú endurheimt birkiskóga sem unnið hefur verið að síðastliðin 90 ár af Skógræktinni, og með samvinnu við Landgræðslu ríkisins síðan 1990, hafi komið í veg fyrir mikið öskufok á Þórsmerkursvæðinu.

Í stað þess að fjúka burt liggur askan á skógarbotninum og mun í framtíðinni sjást sem efsta öskulagið af mörgum sem finnast í jarðvegi í skógum á svæðinu. Að mati Hreins Óskarssonar, skógarvarðar Skógræktar ríkisins á Suðurlandi, er þessi góði árangur á svæðinu hvatning til skógræktarmanna um að efla endurheimt birkiskóga víðar um land," segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert