Greiði tekjuskatt af sölurétti

Kaupþing
Kaupþing mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu, að Bjarka Diego, fyrrum framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Kaupþings, hafi borið að greiða tekjuskatt vegna kaupréttarsamninga sem hann gerði við bankann. Samkvæmt dómum stendur ákvörðun ríkisskattstjóra um að hækka skattstofn framkvæmdastjórans um 300 milljónir króna. 

Að auki var Bjarka var gert að greiða 25% álag og verðbótaálag við endurútreikninginn. Þetta þýddi að Bjarki þurfti að greiða rúmar 150 milljónir króna til viðbótar í skatt fyrir árin 2005 og 2006.

Í júní sl. fékk núverandi vinnuveitandi Bjarka bréf frá ríkisskattstjóra þar sem þess var krafist að hann myndi halda eftir af launum Bjarka 155.583.679 krónum.

Taldi embættið vanhæft vegna skrifa í Tíund

Bjarki krafðist þess, þess að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi og viðurkennt yrði með dómi að hann hafi talið rétt fram fyrir árin tvö. Bjarki byggði kröfu sína um að úrskurður ríkisskattstjóra yrði ógildur meðal annars á því að hann teldi ríkisskattstjóra vanhæfan til að fjalla um sín mál.

Ríkisskattstjóri sé útgefandi og ábyrgðarmaður tímaritsins Tíundar, sem sé fréttablað ríkisskattstjóra, og ábyrgist því efni sem birtist í tímaritinu. Í júníútgáfu tímaritsins árið 2009 hafi birst grein eftir Aðalstein Hákonarson, endurskoðanda og deildarstjóra eftirlitsdeildar embættis ríkisskattstjóra, sem skrifaði undir úrskurð ríkisskattstjóra í máli Bjarka.

Greinin sem beri heitið „Gátu endurskoðendur gert betur?“ byrji á svofelldum orðum: „Á þessu efnahagshruni bera tiltölulega fáir menn ábyrgð og hún er sýnu mest í afmörkuðum hópi bankamanna.“

Þá hafi einnig birst grein eftir nefndan Aðalstein í nóvemberriti Tíundar árið 2009, sem beri heitið „Skuldauppgjör í skjaldborgum“, segir í málflutningi Bjarka.

Sagði margskonar dylgjur og fyrirlitningu birtast í grein í Tíund

„Í greininni komi fram margskonar dylgjur og hrein fyrirlitning á lánveitingum til starfsmanna fjármálafyrirtækja vegna hlutabréfakaupa, en þar segi m.a.: „Í fjármálageiranum tíðkaðist að stjórnendur gætu keypt hlutabréf í fyrirtækinu sem þeir störfuðu hjá á kjörum sem almenningi stóðu ekki til boða. Fyrirtækin sjálf veittu þeim eingreiðslulán til nokkurra ára eða útveguðu slík lán til kaupanna.

Til viðbótar veittu þessi fyrirtæki stjórnendum sínum ókeypis sölurétt á hlutabréfunum sem tryggðu að þeir gætu sagt sig frá kaupunum ef lækkun yrði á verðmæti bréfanna þannig að þeir myndu ekki tapa. Einhverjir fengu svona fyrirgreiðslu í gegnum einkahlutafélög sem þeir áttu sjálfir og þannig gátu þeir mögulega sótt sér skattahagræði umfram aðra.

Sumir græddu á þessu fjárhæðir sem voru hærri en ævitekjur velflestra Íslendinga en aðrir lentu í hruninu og sátu uppi með skuldir og verðlitlar og verðlausar eignir eða jafnvel fluttu eignir sínar yfir á nöfn ættingja eða vina. Lánin sem fyrirtækin í fjármálageiranum veittu til kaupa á eigin hlutabréfum voru jafnan uppá tugi eða hundruð milljóna króna og gengu undir nafninu lánssamningur. Slík lán var ekki að finna í þjónustuframboði bankanna og því stóðu þau almenningi ekki til boða, enda menn oft að semja við sjálfa sig.“ Með greininni hafi birst stór mynd af höfuðstöðvum Kaupþings," segir í málflutningi Bjarka.

Dómari féllst ekki á vanhæfi vegna skrifa í Tíund

Á þetta féllst dómari hins vegar ekki á en dómari leit svo á að ummæli Aðalsteins Hákonarsonar í blaðinu Tíund sem Bjarki vitnar til í málatilbúnaði sínum séu almenns efnis og leiði ekki til þess að þeir starfsmenn ríkisskattstjóra sem kváðu upp úrskurð í máli hans hafi verið vanhæfir til þeirrar stjórnarathafnar.

Í Fréttablaðinu 15 september 2009 var eftirfarandi haft eftir ríkisskattstjóra: „Þeir sem eru með kauprétti eða sölurétti hafa oftast fært ávinninginn sem fjármagnstekjur. Við lítum svo á að þetta séu ekkert annað en launatekjur.“

Í ummælum þessum er ekki skírskotað til sérstaks tilviks hvað þá tilviks Bjarka heldur viðhorfs til þess hvernig skuli fara almennt með skattskil vegna ávinnings þeirra sem hafi kaup- og sölurétt. Verður að líta svo á að það leiði af fyrrgreindum starfsskyldum  ríkisskattstjóra og sé í samræmi við þær, að ummæli þessi voru höfð uppi, og verður ekki á það fallist með stefnanda að hér sé um atvik eða aðstæður að ræða sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni ríkisskattstjóra með réttu í efa, segir í niðurstöðu dómara.

Í niðurstöðu sinni vísaði dómarinn til laga um tekjuskatt þar sem fram kemur að  gæði, arður, laun og hagnaður, sem skattgreiðandi fær og er metin til peningaverðs, falli undir ákvæði tekjuskattslaga.

Bjarki gerði samning  á árinu 2001 við Kaupþing hf., um kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf. sem bankinn sölutryggði og veitti lán fyrir.

Samningurinn, sem er dagsettur 31. desember 2001 var um kaup á 300.000 hlutum. Þá gerði hann samning  við Kaupþing banka hf. hinn 19. nóvember 2003 um kaup á 375.000 hlutum. Samhliða þessum samningum voru gerðir lánasamningar á milli Bjarka og Kaupþings. Lánin sem bankinn veitti voru jafnhá kaupverðinu og til jafnlengdar söluréttinum sem gilti í þrjú ár.

Gat ekki tapað á samningnum

Úrskurður ríkisskattstjóra byggist á því að um hafi verið að ræða tiltekna útfærslu á kauprétti sem hafi verið liður í kaupréttarkerfi bankans við stjórnendur hans. Ekki hafi í reynd verið um staðfest kaup á hlutabréfum að ræða fyrr en sölurétturinn hafi verið útrunninn eða fallinn úr gildi með öðrum hætti, gerðist það fyrr.

Með kaupunum, þar sem Bjarki hafi enga fjármuni látið af hendi, hafi gengi á hlutabréfunum verið fest með sambærilegum hætti og þegar hefðbundinn kaupréttarsamningur sé gerður. Það hafi síðan ekki verið fyrr en söluréttartryggingin hafi fallið niður, með uppsögn eða hún rann út, sem hin raunverulega nýting kaupréttarins hafi farið fram þegar áhættan af kaupunum hafi flust yfir til Bjarka. Samkvæmt samningunum hafi átt að gera upp lánin samhliða en í því tilviki sem hér er til úrlausnar hafi þau verið framlengd.

Gerð samninga þessara var í beinum tengslum við þá stefnu bankans að tilteknir lykilstarfsmenn ættu kost á að eignast hluti í honum til þess m.a. að tryggja að þeir hagsmunir hluthafa og starfsmanna að hagnaður yrði sem mestur af starfsemi bankans og verðmæti hluta ykist sem mest færu saman.

Gerði starfsmönnum kleift að eignast hluti á lægra verði en aðrir án áhættu

Samningar þessir gerðu starfsmönnunum kleift að eignast hluti í bankanum fyrir lægra verð en gilti á almennum markaði er samningar voru gerðir og voru þess efnis að starfsmenn slyppu skaðlausir frá því ef verð hluta lækkaði á því þriggja ára tímabili sem samningarnir  skyldu gilda.  Telur dómari ljóst að samningar þessir hafi byggst á starfssambandi aðila.

Ekki verður fram hjá því litið að tilgangur fjármálagerninga þeirra sem gerðir voru var sá að þeir virkuðu sem kaupauki fyrir Bjarka en jafnframt því að hann eignaðist hlutina skyldi hann tryggður fyrir hugsanlegri verðlækkun þeirra. Þá lánaði bankinn honum allt andvirði bréfanna og skyldu lánin endurgreitt í lok samningstíma.

Samkvæmt samningunum átti Bjarki val um það að liðnum 3 árum hvort hann ætti hlutina áfram eða seldi þá en í hvoru tilviki um sig gerðu samningarnir ráð fyrir því að Bjarki greiddi lán það sem hann hafði fengið til kaupanna. Fólst í þessu að Bjarki var í aðstöðu til þess að afla sér tekna sem myndast kynnu við mismun verðs hlutanna er sölurétturinn félli úr gildi en áhætta hans vegna lækkunar verðs var engin.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert