Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands fljúga nú yfir Grímsvötn til að rannsaka hvort gos sé hafið eða við það að hefjast á svæðinu, en aukinn órói mældist á skjálftamæli á Grímsfjalli kl. 2:30 í nótt.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að á þessari stundu sé ekki hægt að slá neinu föstu um eldgos. „Það er verið að fljúga yfir og reyna að finna út úr þessu,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Aukinn titringur mældist á mælum á Grímsfjalli í nótt. Páll bendir á að titringur hafi þegar mælst í sambandi við jökulhlaupið.
„Það hefur verið vaxandi hægt og rólega alveg frá því á fimmtudagseftirmiðdag, en í nótt þá jókst hann skyndilega talsvert. Þar varð greinilega einhverskonar atburður sem ekki er búið að finna út úr ennþá,“ segir hann. Ekki sé búið að staðfesta að gos sé hafið.
Vísindamennirnir fóru í loftið um ellefuleytið í morgun.
„Staðan sem uppi er býður upp á ýmsa möguleika,“ segir Páll. „Síðast þegar svona hlaup var af þessari stærðargráðu [árið 2004] þá hleypti það af stað gosi. Það er óvíst að það gerist núna, en það getur vel gerst.“