Ríkislögreglustjóri telur ekki ástæðu til að taka rafbyssur í almenna notkun meðal íslenskra lögreglumanna. Er meðal annars litið til þess að ofbeldi gegn lögreglu hefur ekki aukist á undanförnum árum og ekki heldur dauðsföllum af völdum rafbyssa í Bandaríkjunum og Kanada.
Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn lögreglumönnum. Þar segir þó, að þrátt fyrir að það sé mat ríkislögreglustjóra að tækin verði ekki tekin til almennrar notkunar sé vert að kanna hvort sérsveitin eigi að prófa rafbyssur og hafa sem hluta af sínum staðalbúnaði tímabundið.
Að öðru leyti telur ríkislögreglustjóri að lögreglan sé komin að þolmörkum hvað varðar heildarstarfsmannafjölda miðað við núverandi skipulag. Frekari fækkun sé líkleg til að draga úr öryggi lögreglumanna þar sem lögreglustjórar munu þurfa að fækka á vöktum og láta lögreglumenn starfa eina fremur en með félaga.
Hins vegar var í níu af hverjum tíu málum vitað af ofbeldi eða óspektum á vettvangi fyrirfram. Því sé hægt að huga betur að því hvernig lögreglan bregst við og tryggja að lögreglumenn fari ekki fáliðaðir inn á slíkan vettvang, þar sem þeir geti sett sjálfa sig í hættu.