Grunaðir um geitarbrennu

Geitin logaði glatt, eins og sést á þessari mynd sem …
Geitin logaði glatt, eins og sést á þessari mynd sem var tekin kl. 3.51 í nótt.

Ákveðnir menn liggja undir grun um að hafa kveikt í Gävle-jólageitinni sem stóð við verslun IKEA í Garðabæ í nótt. Enginn hefur þó verið handtekinn og engin játning liggur fyrir að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Tilkynnt var um eldinn á fjórða tímanum í nótt.

Geitin, sem var úr tré og hálmi, brann til kaldra kola.

Gävle-geitin við IKEA í Garðabæ var reist að sænskri hefð. Í Svíþjóð er einnig sá siður, eða ósiður, landlægur að kveikja í jólageitunum og virðist hann því einnig hafa borist hingað. Þannig hafa geiturnar, sem reistar hafa verið á hverju ári í Gävle í Svíþjóð allt frá 1966, orðið eldi að bráð í 24 skipti.

Gävle-geitin sem var fyrst reist 1966 fékk að standa fram á gamlárskvöld þegar kveikt var í henni. Slökkviliðið í Gävle sá um að reisa geitina fyrstu fjögur árin og sá um það líka frá 1996-2002, samkvæmt upplýsingum frá IKEA. 

Geiturnar í Gävle hafa orðið eldi að bráð að meðaltali annað hvert ár. Í fyrra brann geit í Gävle í 24. sinn.  Árið 1985 var sett upp 12,5 m há geit og var hún stærsta jólageit í heimi, samkvæmt Heimsmetabók Guinnes. Risageitin var varnin með tveggja metra hárri girðingu og vöktuð af öryggisvörðum og sænskum hermönnum.

Þrátt fyrir allar þessar varúðarráðstafanir varð geitin sú eldinum að bráð. Öryggisverðirnir brugðu sér frá til að fá orna sér á heitu kaffi í fimbulkulda og þá sá brennuvargur einn sér leik á borði og kveikti í.

Áhugafólk um geitur hefur getað veðjað um örlög jólateitanna hjá breskum veðbönkum allt frá árinu 1988. Jólageitin í Gävle var brennd 3. desember árið 2005 og í kjölfarið fóru geitarbrennur sem eldur í sinu um alla Svíþjóð og brunnu jólageitur hvar sem til þeirra náðist.

Í 39 ára sögu jólageitanna til ársins 2005 höfðu einungis fjórir geitarbrennuvargar verið gómaði í Svíþjóð og fengið verðskuldaða refsingu.

Gävle-geitin var reist við IKEA 5. nóvember. Hún var um 4,5 metrar að hæð og gerð úr trégrind og íslenskum hálmi. Áður en geitin varð eldinum að bráð hafði hún orði fyrir ýmsu, m.a. ákeyrslu bíls.

Örlög jólageita í Gävle (á sænsku)

Gävle-geitin við IKEA áður en hún varð eldinum að bráð. …
Gävle-geitin við IKEA áður en hún varð eldinum að bráð. Hún var um 4,5 m há og gerð úr trégrind og hálmi. Ljósmynd/IKEA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert