Lánastofnanir hafa nú 60 daga frest til útreikninga á ólögmætum gengisbundnum bíla- og fasteignveðlánum. Frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengisbundin lán var samþykkt á Alþingi laugardaginn 18. desember og varð í dag að lögum.
Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að ljósi dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september sl. er tekið á útreikningum húsnæðislána til neytenda og lánum sem einstaklingar hafa gert við fjármálafyrirtæki vegna kaupa á bifreið til einkanota.
Kveðið er á um að gengisbundin fasteignaveðlán einstaklinga og svokölluð bílalán verði talin falla í sama flokk óháð orðalagi samninga þeirra. Allir lántakendur fá því lækkun eftirstöðva sinna til samræmis við dóm Hæstaréttar frá 16. september sl.
Lánastofnunum er settur tímafrestur vegna uppgjörs og útreikninga á ólögmætum gengisbundnum lánum. Fresturinn til að senda lántaka útreikning á nýjum höfuðstól og/eða endurgreiðslu ofgreidds fjár er 60 dagar frá gildistöku laganna að hámarki en uppgjör skal fara fram innan 90 daga frá gildistöku laganna.
Heimilt verður án álags eða vanefndaafleiðinga að greiða upp skuld af ólögmætu gengisbundnu láni.
Regla um uppgjör stuðlar að því að allar greiðslur af láni gangi inn á vexti og höfuðstól skuldarinnar og að ekki verði heimilað að reikna dráttarvexti eða önnur vanskilaálög af slíkum kröfum við uppgjör.
Í þeim tilfellum sem eigendaskipti hafa orðið og fleiri en einn lántakandi kemur að málinu er miðað við að sá lántakandi sem orðið hefur fyrir tjóni fái það bætt beint úr hendi viðkomandi lánveitanda. Með þeim hætti er hagur fyrri lántakenda tryggður eftir því sem unnt er.
Ef ábyrgðarmenn hafa greitt af lánum ganga kröfur þeirra fyrir öðrum kröfum.
Lögð er til regla um uppgjör ágreiningsmála ef áhöld eru um hver eigi rétt til endurgreiðslu eða uppgjörs.
Lántakendur hafa tímabundna heimild til að breyta lánum sínum yfir í gild erlend lán, kjósi þeir svo. Fellur þá niður réttur til sérstakrar leiðréttinga á láninu.
Lántakendum fasteignaveðlána býðst jafnframt að breyta láni sínu yfir í verðtryggð kjör.
Vikið er frá almennum tímafrestum til endurupptöku dómsmála hvað varðar gengisbundin lán. Enginn réttur er tekinn af lántakanda til að láta á mál sitt reyna fyrir dómstólum.
Lögin breyta í engu réttarstöðu fyrirtækja sem eru með gengisbundin lán.