Vilja að Alcan skipti við íslenskt skipafélag

Samtökin birtu auglýsingu í blöðunum í morgun þar sem þessir …
Samtökin birtu auglýsingu í blöðunum í morgun þar sem þessir sjómenn gera kröfu til Alcan.

Sjómannafélag Íslands, Félag skipstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna skora á Rio Tinto Alcan að beina viðskiptum sínum til skipafélaga með íslenska sjómenn í áhöfn. 

Þann 20. janúar næstkomandi rennur út útboðsfrestur vegna álflutninga á sjó fyrir Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að í  tæp 40 ár hafi íslenskir sjómenn séð um flutninga til Evrópu fyrir álverið.  Árið 2008 ákvað álverið hins vegar að skipta við norska skipafélagið Wilson Euro Carriers „en skip þess sigla undir hentifána með rússneskar áhafnir á smánarlaunum,“ eins og segir í tilkynningunni. „ Ef Rio Tinto Alcan beinir viðskiptum sínum til skipafélags með íslenska sjómenn í áhöfn  tryggir það 32 sjómönnum pláss og á annað hundrað manns fyrirvinnu. Það munar um minna.“
 

Segir sjómennina ekki vera á smánarlaunum

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan, sagði að fyrirtækið fagnaði því að sjónum væri beint að umsvifum þess á Íslandi. „Ég held að það séu fá fyrirtæki sem hafa lagt svipað að mörkum eftir hrunið. Við erum að ráðast í 57 milljarða króna fjárfestingu sem er sú stærsta eftir hrun. Hún skapar 600 ársverk. Við notum íslenskt verkfræðifyrirtæki til að hanna þessa framkvæmd og til að sjá um hana, sem var ekki endilega sjálfgefið að gera. Við skiptum framkvæmdum niður í áfanga svo að íslensk fyrirtæki eigi meiri möguleika á að fá þessa samninga.“

Ólafur Teitur sagði að Alcan væri að eyða 1.500 milljónum á Íslandi í hverjum einasta mánuði. Fyrirtækið keypti vörur og þjónustu á Íslandi af yfir 300 íslenskum fyrirtækjum fyrir um 5 milljarða á ári.

„Hvað varðar þessa flutninga þá er það rangt að sjómenn á þessum skipum sem við erum að skipta við í dag séu á smánarlaunum. Það er langur vegur frá því. Samkvæmt mínum upplýsingum eru sjómennirnir á mjög sambærilegum kjörum og íslenskar áhafnir. Það er ekki það sem kemur í veg fyrir að íslensk félög eða önnur félög geti verið samkeppnisfær með því að hafa íslenskar áhafnir.“

Ólafur Teitur sagði að það gætu allir tekið þátt í þessu útboði sem stæði yfir og það væri mjög jákvætt ef félag sem notar íslenskar áhafnir yrði hlutskarpast í því. En það yrði að vera samkeppnishæft.

Ólafur Teitur sagði að áður en Alcan bauð út flutningana árið 2008 hefði íslenskt félag séð um flutningana og það hefði ekki notað alfarið íslenskar áhafnir.  Hann sagði að stór hluti af flutningum til og frá Íslandi væri mannaður áhöfnum sem væri að hluta til með erlent ríkisfang.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert