Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að sameina mætti tvo af þremur stóru bönkunum á Íslandi. Í viðtali við Wall Street Journal segir Gunnar að of mikið sé af bönkum hér á landi.
Í viðtalinu er minnt á að allir stóru bankarnir hér á landi, Landsbankinn, Glitnir og Kaupþing hafi orðið greiðsluþrota árið 2008 og í kjölfarið yfirteknir af ríkinu. Upp risu „nýir“ bankar, að hluta undir nýjum nöfnum, sem byggðu á innlendri starfsemi en þeir gömlu voru látnir sigla lönd og leið ásamt erlendri starfsemi bankanna. Gunnar segir í viðtalinu að sameina mætti tvo af þremur bönkum. „Hér er of mikið af bönkum og svo hefur verið í dágóðan tíma,“ er haft eftir Gunnari.
Sameining myndi styrkja bankakerfið, að mati Gunnars. Nú sé aðalatriðið að minnka hlutfall þeirra lána sem ekki er greitt af úr 40-50% í 1-3%. Þetta verkefni geti tekið 2-3 ár.
Tveir af nýju bönkunum er að mestu í eigu kröfuhafa, þ.e. Íslandsbanki og Arion banki. Landsbankinn er á hinn bóginn að mestu í eigu ríkisins.
Fram kemur að 87% af hlutafé í Arion er í eigu kröfuhafa en 13% í eigu ríkisins. Gunnar segir að eftirlaunasjóðir, fjárfestar og þýski Landesbankinn séu helstu kröfuhafar bankans.
Eins og gefur að skilja hrundi traust til íslenskra banka í bankahruninu 2008. Gunnar segir að FME muni framvegis taka lánshæfismati erlendra matsfyrirtækja með fyrirvara. FME muni sjálft kanna stöðu bankanna. Uppfylli bankarnir öll skilyrði segist Gunnar ekki setja sig upp á móti því ef bankarnir myndu reyna að hefja starfsemi á ný utan landsteinanna.
Gunnar segir í viðtalinu að það myndi styrkja stöðu bankanna ef Ísland tæki upp evru. Tekjur af gjaldeyrisviðskiptum myndu minnka en á móti kæmi að áhætta í bankakerfinu myndi minnka.