Óli G. Jóhannsson, listmálari á Akureyri, er látinn. Hann veiktist alvarlega á mánudaginn og lést á Landspítalanum í gær, 65 ára að aldri.
Óli fæddist á Akureyri 13. desember 1945, sonur hjónanna Hjördísar Óladóttur og Jóhanns Guðmundssonar póstmeistara.
Eftirlifandi eiginkona Óla er Lilja Sigurðardóttir. Þau eiga fjögur börn, Örn, Sigurð, Hjördísi og Hrefnu. Óli var elstur fjögurra systkina, sem öll lifa bróður sinn. Þau eru Edda, Örn og Emilía.
Óli varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1966 og kom víða við eftir það. Hann fékkst til dæmis við kennslu, starfaði lengi sem gjaldkeri á Pósthúsinu á Akureyri en vann árum saman við myndlist í hjáverkum og hélt sína fyrstu sýningu árið 1973. Óli stofnaði Gallerý Háhól á Akureyri árið 1974 og rak það til 1980, hann var rúman áratug til sjós á togurum Útgerðarfélags Akureyringa og blaðamaður á Degi um tveggja ára skeið. Óli var lengi mikill hestamaður og sinnti því áhugamáli af krafti til dauðadags. Á yngri árum var Óli afbragðssundmaður og var einn stofnenda Sundfélagsins Óðins á Akureyri árið 1963.
Frá 1993 helgaði Óli sig myndlistinni og hafa abstrakt verk hans vakið athygli víða um heim. Hann hélt fjölda sýninga síðustu ár, bæði hér heima og erlendis. Hann hefur verið samningsbundinn Opera, alþjóðlegu gallerí, og sýnt á þess vegum í Singapúr, Monte Carlo, London og New York, svo dæmi séu tekin. Þau Lilja stofnuðu árið 2007 listhúsið Festarklett í gömlu kartöflugeymslunni við Kaupvangsstræti á Akureyri og þar hefur Óli sýnt reglulega. Sýning á verkum hans var opnuð um síðustu helgi í Duus-húsum í Reykjanesbæ.