Jafnvel þó mat á sakhæfi sé lögfræðilegt og dómara að komast að niðurstöðu hafa dómstólar á síðustu árum og jafnvel áratugum byggt niðurstöðu sína á mati geðlækna. Þetta sagði Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi Gunnars Rúnars Sigurþórssonar, við aðalmeðferðina í dag.
Hún fer fram á að Gunnar Rúnar verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins þar sem hann sé ósakhæfur.
Guðrún benti á að um samdóma álit þriggja virtra og reyndra geðlækna sé að ræða, þ.e. þeir telja allir að Gunnar Rúnar hafi ekki verið fær um að stjórna aðgerðum sínum daginn örlagaríka í ágúst á síðasta ári þegar hann varð Hannesi Þór Helgasyni að bana á heimili hans. Jafnframt bendi þeir allir á að Gunnar Rúnar eigi að sæta öryggisgæslu og mótmælti Guðrún Sesselja því ekki.
Hún sagði engar skýringar hafa verið færðar fram á því hvers vegna Gunnar Rúnar varð Hannesi að bana. Því verði að leggja til grundvallar svæsið geðrof, líkt og fram kemur í matsgerðum. Þó til séu dæmi um að dómstólar hafi komist að annarri niðurstöðu en geðlæknar sé það afskaplega sjaldgæft á undanförnum árum.
Þá benti Guðrún Sesselja á, að Gunnar Rúnar hafi verið óeðlilega rólegur sem bendi kannski til þess að eitthvað mikið sé að. Þá hafi hann ekki borið neinn kala til Hannesar.