Fer fram á 16 ára fangelsi

Gunnar Rúnar Sigurþórsson.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari krafðist þess að Héraðsdómur Reykjaness dæmi Gunnar Rúnar Sigurþórsson í sextán ára fangelsi fyrir morðið á Hannesi Þór Helgasyni í ágúst á síðasta ári. Hún sagðist telja að geðlæknum hefði ekki tekist að sýna fram á að hann sé ósakhæfur.

Sigríður Elsa sagði Gunnar Rúnar virst hafa fullkomna stjórn þar til hann þurfti að játa á sig verknaðinn, en þá hafi sönnunargögn komið fram vegna mistaka Gunnars Rúnars sem leiddu til þess að blóð komst á skó hans, og hann skilið eftir skófar á vettvangi.

Þá komi fram í gögnum málsins að Gunnar hafi áður ráðist á fólk. Sagði Sigríður Elsa að fimm tilvik slíks væru ljós. Seinast að hann hafi viljað vinna samfanga sínum mein. Verði eitthvað til þess að reita hann til reiði taki hann sér vopn og reyni að ráðast á fólk. Atriði í þessum máli, sem valdið hafi reiði hans, séu óteljandi. Hún sagði orsakasamhengi sjúkdóms og verknaðar hins vegar ekki fyrir hendi.

Sagði Sigríður Elsa, að við ákvörðun refsingar bæri dómara að líta til þess að árásin hafi verið grimmileg, veist hafi verið að sofandi manni og ekki hætt þegar hann reyndi að komast undan. Þá hafi ástæður verknaðarins verið mjög eigingjarnar. Einnig hafi Gunnar Rúnar reynt að halda sig við skipulag sem hann hafi komið sér upp og haldið lífi sínu áfram líkt og ekkert hafi í skorist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert