Gunnar Rúnar Sigurþórsson lýsti því í viðtali við geðlækna að hann hafi brosað og honum liðið vel fyrir utan hús Hannesar Þórs Helgasonar áður en hann hélt inn og svipti Hannes Þór lífi. Gunnar Rúnar sagðist á þeirri stund hafa verið hræddur við sjálfan sig. Þetta kom fram við aðalmeðferð í manndrápsmálinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Tómas Zoëga, geðlæknir á Landspítala, lýsti því að Hannes hafi engu að síður verið hlutlaus persóna í verknaði Gunnars Rúnars. Ekki hafi virst vera miklar tilfinningar gagnvart honum. Hannes hafi hins vegar staðið í vegi fyrir ástarsambandi hans og kærustu Hannesar og eina ráðið hafi verið að losa sig við hann.
Þá lýsti Tómas því að Gunnar hafi í kjölfar sjálfsvígs föður hans búið sér til ímyndaðan hugarheim. Þar hafi faðir hans verið á lífi og Gunnar Rúnar horfið þangað á köflum. Eftir að hann hitti kærustu Hannesar, sem hafi verið bekkjarsystir hans, snemma árs 2009 hafi hann tekið hana inn í þann hugarheim. Og eftir það fór að bera á hugmyndum um að losna við Hannes.
Tómas var ásamt Kristni Tómassyni geðlækni fenginn til að framkvæma yfirmat á geðrannsókn Helga Garðasonar geðlæknis. Allir komust þeir að þeirri niðurstöðu að Gunnar Rúnar sé ósakhæfur.