Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Gunnari Rúnari Sigurþórssyni lauk í Héraðsdómi Reykjaness seint á öðrum tímanum í dag. Málið hefur verið dómtekið og verður dómur að öllum líkindum kveðinn upp innan fjögurra vikna.
Ef farið er stuttlega yfir atburðarrás dagsins ert fyrst vert að minnast á þann mikla fjölda fólks sem sótti aðalmeðferðina. Um klukkustundu áður en dómþing var sett var þegar orðið þröngt í húsnæði Héraðsdóms Reykjaness og þegar hleypt var inn í sal 1 myndaðist mikill troðningur. Áður hafði verið ákveðið að útvarpa aðalmeðferðinni yfir í annan dómsal. Báðir voru þeir þéttsetnir, svo þétt að tvísýnt var um tíma hvort fjölmiðlar kæmust að.
Gunnar Rúnar var að lokum leiddur inn í dómsal í handjárnum. Hann er líkt og áður hefur komið fram 23 ára Hafnfirðingur. Samkvæmt ákæruskjali er Gunnar Rúnar ákærður fyrir að hafa veist að Hannesi Þór Helgasyni á heimili hans og banað með því að stinga hann ítrekað í brjóst, bak og hendur með hnífi. Gekk hnífurinn meðal annars í hjarta, lungu og nýra. Hann játaði morðið fyrir lögreglu eftir að sönnunargögn komu í ljós sem tengdu hann við glæpinn.
Að sögn verjanda Gunnars Rúnars, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, treysti hann sér ekki til að gefa skýrslu fyrir dómi og nýtti sér því lögbundin rétt til að neita að svara. Hann óskaði þess einnig að yfirgefa dómsalinn, og var orðið við því.
Eftir að Gunnar Rúnar yfirgaf dómsalinn var komið að skýrslutöku yfir þeim þremur geðlæknum sem unnu mat á sakhæfi Gunnars Rúnars. Fyrstur var Helgi Garðarsson en hann vann fyrsta matsgerðina eftir þrjú löng viðtöl við Gunnar Rúnar.
Helgi sagði virst sem Gunnar Rúnar hafi verið heilbrigt barn sem þroskaðist eðlilega. Þegar hann var níu ára gerðist hörmulegt áfall í fjölskyldunni en þá svipti faðir hans sig lífi. Einu til tveimur árum síðar gerðust róttækar breytingar á þroskaferli Gunnars Rúnars og hann þróaði með sér það sem Helgi kallaði sjúklegt sálarlíf á geðrofsgrunni. Um hafi verið að ræða djúpstætt rof í persónuleika. Hann sagði að innra með honum væru tveir persónuleikar eða tvö tilfinningaleg öfl.
Síðar kom fram í máli Tómasar Zoëga og Kristins Tómassonar sem unnu yfirmat á matsgerð Helga Garðarssonar að Gunnar hafi ekki tekist á við fráfall föður síns sem var honum náinn. Hann hafi frekar búið til eigin hugarheim þar sem faðir hans var enn á lífi. Þangað hafi hann svo leitað þegar hann átti erfitt. Í máli Guðrúnar Sesselju kom svo fram að Gunnar fór hvorki í kistulagningu né útför föður síns.
Niðurstaða geðlæknanna er sú sama þó svo forsendurnar séu að einhverju leyti frábrugðnar. Allir voru þeir á þeirri skoðun að sýkna ætti Gunnar á grundvelli 15. greinar almennra hegningarlaga. Greining hljómar orðrétt: „Þeim mönnum skal eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum.“
Jafnframt töldu geðlæknarnir að Gunnar skuli sæta öryggisgæslu. Kristinn sagði einnig að mjög erfitt sé að dæma um hvort hann geti náð bata.
Gunnar starfaði á hjá tölvufyrirtæki og það var í hádegismat á pizzastað á árinu 2009 sem hann hitti Guðlaugu Matthildi Rögnvaldsdóttur, eða Hildi. Þau höfðu verið bekkjarsystkin og tóku því tal saman. Í kjölfarið höfðu þau meira samband. Stuttu eftir að þau hittust tók Hildur upp samband við Hannes Þór.
Geðlæknarnir lýstu því sem svo, að Gunnar Rúnar hafi hrifist mjög af Hildi og tekið hana inn í ímyndaða hugarheim sinn. Þar hófst svo sú atburðarás sem leiddi til hinna hörmulegu atburða í ágúst á síðasta ári.
Að sögn Helga tókst Gunnari ekki að lesa hug Hildar til sín. Þá virðist hafa sprottið upp sú sjúklega hugsun að hann yrði að ryðja Hannesi úr vegi til að njóta Hildar einn. Helgi segir að Gunnar hafi að hluta gert sér grein fyrir sjúkleika þessara hugsana en ekki haft færni til að leiðrétta þær í raunveruleikanum. Þær hafi náð sjálfstæðu lífi í huga hans og náð á honum sterkum tökum. Gunnar Rúnar hafi skipulagt morðið ítarlega í huga sér og að lokum hafi verið jafnaðarmerki milli hugmyndar og verknaðar í hans huga.
Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari, sagðist ekki á sömu skoðun og geðlæknarnir og fór fram á sextán ára fangelsi yfir Gunnari Rúnari. Hún benti á að forsendur geðlæknanna væru mismunandi og að í þeim hafi ekki verið sýnt fram á að Gunnar sé ósakhæfur.
Hún sagði líta svo út, að Gunnar hafi haft fullkomna stjórn á aðstæðum, allt þar til sönnunargögn komu í ljós sem tengdu hann við morðið. Þá hafi hann þurft að játa og brotnað niður. Þá séu fjölmörg atriði sem getað hafi reitt hann til reiði og orðið til þess að hann framdi verknaðinn. Meðal annars, að Hildur hóf að vera með Hannesi eftir að þau hittust á pítsustaðnum. Gunnar Rúnar hafi því hugsanlega upplifað það sem svo, að Hannes hafi stolið henni af sér.
Þá benti Sigríður Elsa á, að myndbönd, sem Gunnar Rúnar birti á netinu þar sem hann játaði ást sína á Hildi, höfðu engin áhrif á Hannes. Það hafi Gunnar Rúnar getað upplifað sem svo að Hannes hafi ekki litið á hann sem keppninaut. Og einnig að Hannes hafi alltaf verið góður við Gunnar sem hann hafi getað túlkað sem svo að Hannes hafi litið niður á hann.
Guðrún Sesselja byggði sitt mál hins vegar á niðurstöðu geðlæknanna sem væru virtir og reyndir á sínu sviði.
Þá benti hún á að á undanförnum árum hafi dómstólar nær ætíð fallist á niðurstöðu geðlækna. Hún sagði að um væri að ræða skelfilegan harmleik og enginn vafi léki á hvað gerst hafi. Þá liggi einnig fyrir hvers vegna þetta hafi gerst; vegna andlegra veikinda Gunnars Rúnars.