Ekki nóg að áminna starfsmanninn

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. Ómar Óskarsson

Hulda R. Rúriksdóttir, verjandi konu sem fékk dæmdar miskabætur frá fyrirtæki sem talið var bera ábyrgð á tjóni sem konan varð fyrir vegna kynferðislegrar áreitni, segir að dómurinn feli í sér skilaboð um hvernig fyrirtæki eigi að taka á sambærilegum málum. Það sé ekki nóg að áminna starfsmanninn.

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag fyrirtæki til að greiða konu bætur vegna tjóns sem fyrirtækið er talið bera ábyrgð á vegna kynferðislegrar áreitni sem yfirmaður sýndi henni í sumarbústaðaferð. Konunni voru dæmdar 800.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum. Þá fékk hún 965 þúsund krónur í bætur vegna ógreiddra launa.

Dómurinn taldi að athafnaleysi stjórnenda fyrirtækisins, að búa ekki svo um hnútana að konunni væri fært að sinna starfi sínu áfram, sem hún var í áður en kynferðisleg áreitni átti sér stað, hefði verið til þess fallið að valda henni vanlíðan.

Hulda sagði að sér væri ekki kunnugt um að sambærilegur dómur hefði fallið hér á landi. Lögmaður fyrirtækisins hélt því fram í réttarhöldunum, að sú áreitni sem konan taldi sig hafa orðið fyrir hefði ekki verið kynferðisleg áreitni í skilningi laga. Hulda sagði að dómarinn hefði því orðið taka afstöðu til þessa atriðis og niðurstaða hans hefði orðið sú að konan hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni.

„Í dómnum er síðan fjallað um hvað fyrirtækið hefði átt að gera í kjölfar þessa atviks. Í þessu máli var gerandinn yfirmaður konunnar og hann var í kjölfarið áminntur. Dómurinn segir hins vegar að það hafi ekki verið nóg. Konan átti rétt á því að það væri eitthvað gert í vinninni sem gerði henni kleift að mæta í vinnuna.“

Hulda sagði að dómurinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að vegna þess að fyrirtækið gerði ekkert til þess að hún gæti komið aftur til starfa þá væri hún enn í ráðningasambandi og hún ætti því rétt á launum

„Þessi dómur gæti haft áhrif á hvernig stjórnendur fyrirtækja bregðast við sambærilegum málum vegna þess að það er heilmikil leiðbeining í þessari niðurstöðu um hvernig á að bregðast við. Þar er meginatriðið að það er ekki nóg að áminna gerandann,“ sagði Hulda.

Þess má geta að konan leitaði til stéttarfélags síns og BSRB studdi málstað konunnar enda taldi bandalagið að um væri að ræða prófmál.

Fyrirtækið sem í hlut á hét áður Keflavíkurflugvöllur ohf. en heitir nú Isavia ohf. Mbl.is leitaði viðbragða hjá fyrirtækinu vegna málsins og fékk þau svör að von væri á yfirlýsingu frá því síðar í dag.

Bætur vegna áreitni yfirmanns

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert