Þurfa að sitja undir óhróðri

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Vilmundur Jósefsson, formaður samtakanna.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Vilmundur Jósefsson, formaður samtakanna. mbl.is/Golli

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði á opnum fundi SA um atvinnu- og kjaramál í dag, að sjávarútvegurinn þurfi að sitja undir óhróðri sem komi frá ráðamönnum þjóðarinnar í garð fyrirtækjanna, einstakra manna og samtaka þeirra.

Það væri ekki boðlegt né viðeigandi af hálfu stjórnarflokkanna og forystumanna í stjórnarliðinu að tala svona til sjávarútvegsins. Í sjávarútvegi sem öðrum greinum atvinnulífsins þyrftu menn að fá örugg starfsskilyrði til lengri tíma og vissu um á hvaða forsendum þeir ættu að reka sín fyrirtæki.  

Rugl deilt með tveimur er rugl

Vilhjálmur sagði að ekki væri um það að ræða að hægt væri að semja við starfsmenn fiskimjölsverksmiðja um hækkanir umfram það sem samið verður um við aðra. Launakröfur þeirra væru allt of háar. „Rugl deilt með tveimur er rugl,“ sagði hann.

SA leggur áherslu á að stórum fjárfestingarverkefnum verði haldið áfram. „Við verðum að komast út úr gjaldeyrishöftunum. Mér finnst margir allt of sofandi gagnvart því og búa sér til allskonar afsakanir,“ Vilhjálmur.  

„Kjarasamningar til þriggja ára eru ein af undirstöðum stöðugleikans,“ sagði Vilhjálmur er hann gerði grein fyrr atvinnustefnunni sem Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á. Mikilvægt væri að sami upphafs- og endapunktur væri á samningum við alla hópa.

„Við erum að tala um 7-9% launahækkun á þremur árum,“ sagði hann og bætti við að þetta væru meiri hækkanir en samið væri um í löndunum í kringum okkur. Ef allur vinnumarkaðurinn yrði samferða, þá væri hægt að dreifa þessum hækkunum mismunandi yfir tímabilið og hafa mismunandi útfærslur. En útgangspunkturinn væri samræmd launastefna.

„Megin kaupmáttaraukningin hlýtur alltaf að koma með því að fólk fari af atvinnuleysisbótum og í vinnu. Það er engin kaupmáttaraukning sem getur komið í staðinn fyrir þá aukningu, sem kemur með aukinni atvinnu. Þá erum við ekki bara að tala um minna atvinnuleysi. Við erum að tala um hærri starfshlutföll, við erum að tala um meiri yfirvinnu og við erum að tala um að þær sporslur og niðurfærslur sem hafa verið í gangi á síðustu árum fari að koma til baka,“ sagði Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka