Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að greiðsla Landsvirkjunar fyrir gerð aðalskipulags Flóahrepps og ýmislegt annað í sveitarfélaginu í tengslum við að koma Urriðafossvirkjun inn á skipulagið hafi verið mútur. Þetta kom fram í Silfri Egils í dag.
Verið var að ræða um Urriðafossvirkjun og aðalskipulag Flóahrepps sem Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, staðfesti ekki á sínum tíma sem kunnugt er. Mörður sagði m.a. að sveitarfélagið hafi ekki sett virkjunina inn á skipulag fyrr en að gerðum samningi við Landsvirkjun.
Hann sagði að í samningnum hafi falist að Landsvirkjun myndi greiða fyrir skipulagið, setja bundið slitlag á tvo vegi óviðkomandi virkjuninni, koma að vatnsveituframkvæmdum í hreppnum og bæta GSM samband í hluta hreppsins. Landsvirkjun hafi því þrýst á sveitarfélagið að setja virkjunina inn á skipulagið.
Egill Helgason, umsjónarmaður þáttarins, spurði Mörð hvort hann væri með þessu að segja að Landsvirkjun hafi verið að múta sveitarfélaginu?
Mörður sagði að hægt væri að hafa bæði kurteisleg orð um þetta og ókurteisleg.
„En úr því að þú spyrð þá segi ég mútur og skrifa mútur“ sagði Mörður.