Árið 2010 fæddust 4907 börn á Íslandi, 2523 drengir og 2.384 stúlkur. Það fæddust því 1058 drengir á móti hverjum 1000 stúlkum árið 2010.
Hagstofan, sem birti þessar tölur í dag, segir að einungis tvisvar áður hafi fleiri lifandi fædd börn komið í heiminn á einu ári, árin 2009 og 1960. Árið 2009 fæddust 5026 börn en 4916 árið 1960.
Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Árið 2010 var frjósemi íslenskra kvenna örlítið lægri en árið 2009, eða 2,20 börn á ævi hverrar konu en 2,22 börn ári fyrr. Hagstofan segir, að yfirleitt sé miðað við að frjósemin þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið.
Undanfarin ár hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um 2 börn á ævi hverrar konu. Frjósemin er nú ekki nema um helmingur frjóseminnar í kringum 1960, en þá gat hver kona vænst þess að eignast rúmlega 4 börn á ævi sinni.
Meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og konur
eignast sitt fyrsta barn síðar á ævinni en áður var. Frá byrjun sjöunda
áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en
eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur frumbyrja hækkað og var
26,6 ár að meðaltali á árabilinu 2006-2010.
Hagstofan segir, að algengasti
barneignaaldurinn sé á milli 25 og 29 ára. Á því aldursbili fæddust 138
börn á hverjar 1000 konur árið 2010. Næst algengast er að konur eignist
börn á bilinu 30-34 ára. Aldursbundin fæðingartíðni undir tvítugu var
13 börn á hverjar 1.000 konur árið 2010. Það er afar lágt miðað við
þegar hún fór hæst á árabilinu 1961-1965, þá áttu konur á þessu
aldursbili 84 börn á hverjar 1000 konur. Frá árunum 1981-1985 hefur
fæðingartíðni kvenna í öllum 5 ára aldurshópum frá 30-44 ára aukist, en
dregist saman í aldurshópnum 20-24 og staðið í stað í aldurshópnum 25-29
ára.