Goðafoss, skip Eimskips, sem strandaði við Hvaler í Óslóarfirði á fimmtudagskvöld, laðar nú að sér ferðamenn og hafa margir gert sér ferð á svæðið til að skoða skipið á strandstað.
Skipið strandaði á Kvernskjær, milli Asmaløy og Kirkøy. Margir hafa lagt leið sína til Håbu á Asmaløy. Hefur sveitarstjórn Hvaler sent frá sér tilkynningu þar sem vakin er athygli á að Håbu sé lítið samfélag og vegir og bílastæði ráði illa við marga gesti. Er því mælst til þess að fólk fari frekar til Skipstadsand á Asmaløy eða Rødshue á Kirkøy en þaðan sjáist skipið vel.
Talið er hugsanlegt að Goðafoss verði á strandstað í nokkrar vikur en ekki verið reynt að ná skipinu á flot fyrr en búið er að afferma það og dæla olíu úr tönkum þess.