Óljóst hvenær afferming hefst

Goðafoss á strandstað. Myndin er af vef norsku siglingastofnunarinnar.
Goðafoss á strandstað. Myndin er af vef norsku siglingastofnunarinnar.

Norska siglingastofnunin segir, að ekki liggi fyrir nein tímaáætlun um hvenær hægt verði að byrja að afferma Goðafoss á strandstaðnum í Óslófirði en Eimskip og björgunarfélagið Buksér og Berging muni leggja slíka áætlun fram þegar nauðsynlegum rannsóknum sé lokið. 

Fram kemur á heimasíðu siglingastofnunarinnar, að hún verði að samþykkja björgunaráætlunina.

Í gær sagðist talsmaður Eimskips vonst til að hægt yrði að hefja affermingu þá síðdegis. Um 430 gámar eru um borð í Goðafossi og á að flytja þá um borð í pramma sem síðan siglir með þá í land. Siglingin til Fredrikstad tekur um einn og hálfan tíma. 

Talsmaður norsku siglingastofnunarinnar sagði hins vegar við Aftenposten undir kvöld, að endanleg björgunaráætlun hefði ekki verið lögð fram og fyrr væri ekki hægt að hefja losun skipsins. 

Fram kemur á vef siglingastofnunarinnar, að rannsóknir á skipinu hafi leitt í ljós að gat er á tveimur olíutönkum og hugsanlega einnig á þeim þriðja. Mjög straumþungt hefur verið á svæðinu og lélegt skyggni og því hafa kafarar átt erfitt með að athafna sig.

Olía frá skipinu hefur borist víða í Óslófirði og hefur sést á strandlengjunni og við eyjar beggja vegna fjarðarins. Um tugur fugla hefur fundist dauður eftir að hafa lent í olíunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert